Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:32:28 (4674)

1996-04-12 18:32:28# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:32]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var skringileg ræða. Menn getur greint á um það hvernig landslög eiga að vera en aflahlutdeildarkerfið byggir á landslögum, á lögum um stjórn fiskveiða þar sem skýrlega er ákveðið hvernig aflahlutdeild er úthlutað og hvernig hún breytist og hvernig framsal hennar á að vera. Síðan kemur hv. þm. og heldur því fram að sjútvrh. sé að úthluta veiðiheimildum og heimila framsal á aflaheimildum og þar fram eftir götunum í andstöðu við landslög. Með öðrum orðum að landslög heimili ekki aflahlutdeildarkerfið og heimili ekki framsal á aflahlutdeild, það sé bara einhver ráðherra sem sé að gera það í blóra við landslög. Ef hv. þm. er þessarar skoðunar á hann að gera athugasemdir við setu þessa ráðherra og trúa á þau lög sem hv. þm. trúir að séu í gildi. En því miður fyrir hv. þm. þá er veruleikinn ekki svona. Það eru í gildi lög sem mæla alveg skýrt á um aflahlutdeildarkerfið og hvernig það skuli framkvæmt. Ráðuneytið og ég sjálfur höfum í einu og öllu farið eftir þeim lögum. Ég tel það vera skynsamleg lög í grundvallaratriðum og mun beita mér fyrir því að þau muni gilda áfram þótt þau eins og önnur lög þurfi að þróa og laga að breyttum aðstæðum.