Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:36:37 (4677)

1996-04-12 18:36:37# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:36]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það frv. sem liggur fyrir um breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins er flutt í tengslum við fyrra dagskrármál og lýtur að því að breyta ákvæðum varðandi úreldingu smábáta og heimila að fram til 1. október 1996 geti úreldingarstyrkur vegna krókabáta á sóknardögum numið að hámarki 80% af húftryggingarverðmæti en að hámarki 60% af húftryggingaverðmæti vegna krókabáta á þorskaflahámarki. Ástæðan fyrir því að þetta sérstaka átak er áformað varðandi úreldingu smábátanna er sú að þeir bátar, sem eru á róðradagarkerfinu og reyndar einnig í þorskaflahámarkskerfinu, þó það komi með meiri þunga niður í róðrardagakerfinu, eru miklu fleiri en veiðiheimildirnar segja til um. Í róðrardagakerfinu eru veiðiheimildirnar um 10 lestir á bát eins og kom fram í umræðu um fyrra dagskrármál og þess vegna mikilvægt að gefa þeim kost á því að komast út úr þessu kerfi áfallalítið sem það kjósa. Þrátt fyrir þá rýmkun sem hér er vonandi að eiga sér stað með breytingu á fiskveiðistjórnunarlögunum er það ekki lífvænlegt fyrir alla sem eiga þennan rétt og þess vegna er lagt til að þetta sérstaka átak verði gert.

Varðandi það frv. sem liggur fyrir um breytingar á lögum um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum, byggir það á skýrslu þingmannanefndar sem ég skipaði á sl. ári til að endurskoða þau lög í ljósi reynslunnar. Meginniðurstöður í skýrslu þess starfshóps og tillögum um breytingar eru þær að felld verði úr gildi ákvæði um að skylt skuli að hirða allan afla um borð í fullvinnsluskipum og ákvæði almennra laga um umgengni um auðlindirnar taki einnig til þessara skipa. Í öðru lagi að horfið verði frá því að eftirlitsmaður skuli ávallt vera um borð í fullvinnsluskipi fyrstu sex mánuðina eftir að skipið fær leyfi og þörf fyrir veru eftirlitsmanns um borð í fullvinnsluskipi verði metin hverju sinni. Í þriðja lagi að ráðherra verði heimilt að ákveða að tekin skuli upp sjálfvirk skráning og vigtun afla og afurða um borð í fullvinnsluskipum og jafnframt er gert ráð fyrir því að gömlu fullvinnsluskipin, sem samkvæmt gildandi lögum hefðu þurft að ráðast í mjög miklar og umfangsmiklar breytingar til þess að fullnægja kröfum laganna, fái að halda undanþágum sínum áfram.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessum tveimur frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.