Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 18:44:49 (4679)

1996-04-12 18:44:49# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[18:44]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að tala um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 54/1992, um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum. Þetta frv. hefur verið kynnt í stjórnarflokkunum eins og lög gera ráð fyrir og í þeim umræðum sem þar fóru fram lagði ég eindregið til að þetta frv. yrði ekki lagt fram í þinginu vegna þess að í mínum huga er þetta svo mikil mórölsk spurning að fara að heimila, eins og kemur fram í þessum lögum, að henda öllum afla fyrir borð sem fullvinnsluskip vilja ekki nýta að það er ekki ásættanlegt fyrir fólk sem býr í þessu landi. Í athugasemdum við lagafrv. stendur í 1. lið ,,að felld verði úr gildi ákvæði um að skylt skuli að hirða allan afla um borð í fullvinnsluskipum og að ákvæði almennra laga um umgengni við auðlindina taki einnig til þessara skipa.`` Síðan segir í athugasemdum við 1. gr.: ,,Í 2. gr. laganna var kveðið á um það að óheimilt sé að fleygja fyrir borð fiski, fiskúrgangi eða fiskhlutum. Var þeim gert skylt að koma með að landi allan afla, þar á meðal það sem féll til við vinnsluna svo sem hryggi, afskurð, hausa, innyfli eða afurðir unnar úr þessum hlutum.`` Síðan kemur: ,,Hér er lagt til að horfið verði frá þeirri skyldu að fullvinnsluskip nýti allan þann afla sem úr sjó fæst og gildi hið sama um veiðar þeirra og annarra skipa, sbr. 2. mgr. 1. gr.``

Mér finnst þetta vera alveg sérstaklega mikil og alvarleg mórölsk spurning. Ég verð að segja það sem gamall sjómaður að ég hef oft lent í því að henda afla. Á bak við þá gjörð var alltaf slæm samviska. Menn höfðu alltaf á samviskunni að hafa ekki nýtt þá auðlind sem okkur er í blóð borið að sé sameign þjóðarinnar. Ég spyr: Hvað verður með aðra hluta flotans, vertíðarflotann, togara sem landa fiskinum óunnum í land og önnur fiskiskip sem veiða við Íslandsstrendur? Verður þeim ekki heimilt um leið að henda öllum þeim afla sem þeir telja sig ekki hafa hag af að koma með í land? Ég veit að mikill hluti af þeim afla sem nú er nýttur en var áður aukaafli er orðin verðmætur hluti í framleiðslu margra fiskverkunarhúsa og minni ég á að afurðir eins og skötuselur, tindabikkja, koli, hlýri og jafnvel blágóma eru hirtar í dag og gerðar úr þeim verðmætar tegundir. Þessar afurðir hefðu trúlega seint orðið til nema vegna þess að menn voru neyddir til að nýta sér þær. Frystihúsin keyptu þennan afla á ákveðnu verði og urðu að gera úr honum einhvern pening. Ég spyr: Hvað með frystihúsin sem þurfa að taka við aflanum sem þau geta ekki selt? Hafa þau þá rétt til þess að tilkynna viðkomandi skipum að þau taki ekki við þessum afla, honum verði hent í sjóinn, hann verði ekki keyptur? Ég verð að lýsa yfir miklum vonbrigðum með það að þessir ágætu menn, sem eru í nefnd sem sjútvrh. skipaði til að kanna mál úthafsveiðitogaranna, skyldu komast að þeirri niðurstöðu að það væri eina leiðin til að hægt væri að gera út fiskvinnsluskip að þau hentu öllum þeim afla sem þau vildu ekki nota. Ég segi að þar er verið að leggja til að ganga þannig um þjóðareignina að annað eins hefur ekki sést að mínu viti. Að heimila mönnum að henda öllum fiski finnst mér vera viðkomandi útgerð til skammar.

Herra forseti. Við þessa umræðu get ég ekki annað en sagt að ef svo fer að sjútvn., sem ég reikna með að fái þetta mál, ætli sér að leggja til við 2. umr. að frv. verði lögfest, þá séu þeir að lögfesta glæpinn og það get ég aldrei samþykkt.