Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 19:08:03 (4683)

1996-04-12 19:08:03# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[19:08]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að það hneykslar mig dálítið að heyra í hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni tala eins og það eina sem skipti máli í þessu sambandi sé það hvort einhver ákveðin fjárfesting um borð í skipinu geti skilað arði. Ég veit ekki betur en við höfum verið að reka frystihús um áratuga skeið og það hefur aldrei neinn spurt að því hvort fjárfesting til að vinna fisk sem frystihúsið bað ekki í rauninni um að fá og var ekki tilbúið til að vinna en þurfti að fjárfesta til að geta unnið, hafi skilað arði. Þeir urðu bara að setja upp vinnslu til að geta unnið þann fisk sem þeir þurftu að kaupa. (Gripið fram í.) Við höfum ekkert þurft að gera það, enda hefur þessum fiski verið komið í það verð sem hefur síðan að endingu skilað fiskvinnslunni arði og það er heila málið.

Mér finnst algert hneyskli að hv. þm. skuli líkja því við grjót sem má henda núna fyrir borð. Hann líkir því við grjót og vill að það megi bara henda heilu förmunum jafnvel af þorski vegna þess að hann passar ekki í vinnsluna. Það er ekkert sem segir að sá sem er á karfaveiðum og fær fullt troll af þorski sem hann ætlaði ekki að fá, megi þá ekki bara henda honum vegna þess að hann nýtist ekki í vinnslunni hjá honum, nýtist ekki í þann samning sem hann gerði. Hv. þm. er að heimila það og kallar þetta grjót.

Það var einn ágætur maður vestur á fjörðum sem sagðist beita grjóti þegar hann var spurður að því hvers vegna hann fiskaði svona vel og eftir það var hann alltaf kallaður Grjóti. Ég er hissa að það skuli vera svona umræða í landi eins og Íslandi. Nú virðist allt miðast við það hvort það sé nákvæmlega hægt að græða á þessari sömu stundu og verið er að veiða. Við erum líka umhverfisvænt land og ég held að við berum líka mikla virðingu fyrir þeirri auðlind sem við teljum okkur allir eiga. Þess vegna tel ég að þessi umræða eigi ekki að geta farið á þennan veg.