Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 19:32:12 (4694)

1996-04-12 19:32:12# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[19:32]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi á ég engan frystitogara og ég er ekki beinn aðili að neinni slíkri útgerð. Í öðru lagi eru það ekki rök, herra forseti, þegar menn verða rökþrota að koma hér upp og segja að einhver góð ræða hafi verið vond. (ÖS: Var hún góð?) Ef að við förum í þetta fiskveiðistjórnunarkerfi hefði ég haldið því fram oftar en hv. þm. að galli kerfisins er sóun. Galli kerfisins er fyrst og fremst sóun. Fiski er hent, það veit ég mjög vel og ég hef oftar en flestir aðrir bent á það. Þá er spurningin: Stór fiskur, meðalstór eða lítill. Sé ekki ástæða eða efni eða einhver þau rök fyrir því að hann skuli ekki unninn stöndum við frammi fyrir því að henda honum fyrir borð eða henda honum í mjölkvörn. Báðir kostirnir eru mjög vondir. Það er mjög vont ef fiski er hent. En hverju eru menn bættari ef þeir taka fisk í staðinn fyrir að henda honum fyrir borð að henda honum í mjölkorn ef það er fyrirsjáanlegur taprekstur fyrir þjóðarbúið í heild og viðkomandi útgerð? Hverju eru menn bættari? Svarið mér því. Það er skelfilegt að henda fiski, ég er alveg sammála því. Erum við bættari með því að henda honum í mjölkvörn en að henda honum fyrir borð ef við töpum á mjölinu? Svarið mér því.