Lyfið interferon beta við MS-sjúkdómi

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:16:17 (4707)

1996-04-15 15:16:17# 120. lþ. 118.2 fundur 243#B lyfið interferon beta við MS-sjúkdómi# (óundirbúin fsp.), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:16]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. vegna vals sjúklinga sem fá lyfið interferon beta gegn sjúkdómnum MS. Það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan þau gleðitíðindi bárust að uppgötvast hefði að þetta lyf gæti stöðvað í mjög mörgum tilfellum framþróun þessa hræðilega sjúkdóms. Enn meiri varð fögnuðurinn þegar fréttist að það ætti að verja 30 millj. kr. á þessu ári til að gefa íslenskum sjúklingum þetta lyf. Mér skilst að það séu aðallega tveir taugalæknar á Íslandi sem hafa meðhöndlað þennan sjúkdóm og þeir gerðu lista yfir þá sjúklinga sem þeir ætluðu að mæla með að fengju lyfið, þ.e. þeir máttu ekki vera komnir í hjólastól og ekki vera spastískir. Þá var talið að lyfið kæmi jafnvel ekki að notum. Þar með var talað við þá sjúklinga sem höfðu verið valdir og vaktar miklar vonir hjá þeim, en svo var þessi endanlegi hópur sjúklinga valinn sem fengu lyfið og þá kemur í ljós að það er ekki nema hluti þess hóps sem læknarnir höfðu mælt með, m.a. voru allir skildir eftir sem voru orðnir fimmtugir. Þetta voru svolítið hörð örlög fyrir það fólk sem horfðist í augu við það að það átti að halda áfram að dofna upp.

Mig langar til að spyrja heilbrrh. um ástæðuna fyrir þessu vali og hvort væntanleg sé einhver endurskoðun á þessu á næstunni.