Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:48:46 (4722)

1996-04-15 15:48:46# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:48]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Mér þykir tveir síðustu hv. þm. hafa talað af fullmiklu önuglyndi um þessi mál. Hér er ekki um yfirboð eða léleg vinnubrögð stjórnarliða að ræða. Hér eru menn að ræða málefnalega á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram hafa komið. Það er ljóst að hæstv. sjútvrh. er í nokkrum vanda því nú liggja fyrir niðurstöður í athugunum Hafrannsóknastofnunar á hrygningarstofninum. Það er líka ljóst að óvissuþættir í þessu viðkvæma máli, sem er ekki bara fiskveiðimál heldur efnahagsmál líka, eru fjölmargir. Það er m.a. af þeim orsökum sem ég og ýmsir aðrir stjórnarsinnar höfum lýst þeirri skoðun okkar að vel kæmi til greina að auka aflaheimildir strax á þessu fiskveiðiári.

Á skömmum tíma í ræðustól núna gefst ekki ráðrúm til að telja upp allar þessar röksemdir, en ég leyfi mér þó að nefna að upplýsingar um úrkast á fiskveiðiflotanum í dag benda til þess að úrkastið sé mun meira en menn vilja vera láta. Talsmenn sjómannasamtaka hafa fullyrt upp í 20%. Sumir hafa nefnt, sjómenn sjálfir, upp í 50%. Það er alvarlegt að kasta fiski og verðmætum en það er líka alvarlegt vegna þess að úrkastið mælir ekki í forsendum Hafrannsóknastofnunar við mat á stærð hrygningarstofns. Hið sama gildir um löndun fram hjá vigt.

Ég nefni í öðru lagi að fulltrúar Hafrannsóknastofnunar hafa viðurkennt að skekkjumörk geti verið um 20%. Ég nefni líka að fram hefur komið að skilyrði í sjónum eru betri nú en þau hafa verið í 12 ár. Áfram má telja. Það er m.a. af þessum sökum sem ég tel þetta koma til greina og ég hvet hæstv. sjútvrh. til að auka aflaheimildir strax um 10 þús. tonn og beina þeim sérstaklega til hins gleymda bátaflota og ísfisktogara.