Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:53:43 (4724)

1996-04-15 15:53:43# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:53]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð málshefjanda um aukningu þorskveiðiheimilda. Ég tel það vera skynsamlegt að auka lítillega kvótann og tel vera sanngirni í því að 10 þús. tonnum verði sérstaklega deilt milli kvótabáta og ísfisktogara sem eru í hvað mestum vanda. Fjölmörg skip og bátar eru í vanda vegna skorts á veiðiheimildum fyrir þorski sem meðafla. Það er ekki verið að kasta neinni rýrð á fiskiskipaflotann þó að hann verði að bíða um sinn. Hæfni þess flota til að stunda veiðar á fjarlægum miðum gerir það að verkum að þeirra staða er verulega önnur og betri en annarra veiðiskipa okkar.

Ég tel hæstv. sjútvrh. hafa leyst málefni krókabáta á viðunandi hátt og vil lýsa yfir sátt minni við þá vinnu hans þó mér sé ljóst að með þessu samkomulagi sé verið að festa krókabátaflotann varanlega í aflaheimildakerfinu. Aukning nú um 10 þúsund tonn léttir mjög þann verðlagsþrýsting sem hefur verið vegna skorts fjölmargra á veiðiheimildum fyrir þorsk. Þar að auki verður aflaaukningarstökkið tekið í fleiri skrefum og jafnar því út það álag sem verður óhjákvæmilega á erlendum mörkuðum við verulega aukningu þorskafla, bæði af Íslandsmiðum og úr Barentshafi sem er fyrirsjáanleg á næstu tveimur árum.

Ég tel eðlilegt að taka tillit til ráðgjafar og álits sérfræðinga okkar í þessum veiðistjórnarmálum en vek þó athygli á því að þeir miða við 20% skekkjumörk og tek því undir mat fjölmargra skipstjóra sem stunda veiðar við Ísland um verulega meira þorskmagn á miðunum en verið hefur í meira en áratug. Því er réttlætanlegt að auka heimildir lítillega með tilliti til þeirra raka sem ég áður setti fram í máli mínu.