Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 15:59:28 (4727)

1996-04-15 15:59:28# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[15:59]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það er mín skoðun að reynsla veiðimanna, reynsla skipstjórnarmanna og sjómanna hafi lengi verið vanmetin í okkar fiskveiðistjórnunarkerfi. Ég virði þekkingu vísindamanna okkar, en það eru einnig vísindi á bak við reynslu skipstjórnarmanna og til að mynda er í Suðurlandskjördæmi mikill fjöldi skipstjórnarmanna sem telur fulla ástæðu til þess að auka þorskkvóta nú þegar.

Það er ljóst að mikill fiskur er veiddur fram hjá kerfinu og ef sú aukning sem kemur fram í rannsóknum Hafrannsóknastofnunar fer saman við sannfæringu skipstjórnarmanna sem gerst þekkja á miðunum og hafa áratuga reynslu, þá eru rök fyrir því að létta nú þegar róðurinn inn í framtíðina og auka kvótann lítils háttar. Ég held að það sé augjóst að þá yrði minna hent af fiski, það færi minna fram hjá kerfinu án þess að ég fari nánar út í þá ljótu sálma. En þetta mundi létta stöðuna alla og jafnframt lækka hið háa verð sem gengur nú á kg á þorski, 95 kr., sem er mikill vandi fyrir rekstrareiningar og þróun alla í sjávarútvegi og eykur á svindlið í einu orði sagt.

Það er mitt mat að það væri varlega farið að auka nú þorskheimildir um 15--20 þús. tonn. Það mundi jafnframt létta það að hægt væri að fara rólega á næsta ári í aukningu eins og mál standa. Því vil ég hvetja hæstv. sjútvrh. til að sinna þessum þætti á þann veg.

Ég vil vekja athygli á einu atriði. Það er ekki bara pólitísk ákvörðun að taka af skarið. Það er ekki bara hversu miklu er hent af fiski heldur hefur einnig verið ágreiningur um það hvort þorskstofn sem veiðist í kantinum á Suðurlandsmiðum er inni í líkani Hafrannsóknastofnunar. Allt bendir til þess að sá stofn hafi farið fram hjá kerfinu. Sá stofn er væntanlega upp á tugi ef ekki hundruð þúsunda og það er þeim mun meiri ástæða til að taka af skarið í þessum efnum eins og ég hef bent á.