Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 16:06:37 (4730)

1996-04-15 16:06:37# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[16:06]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Þorskstofninn hefur vaxið hraðar en vísindamenn reiknuðu með og það segir okkur að sjómenn voru nær réttu lagi og fara með rétt mál. Það er eðlilegt að taka ákvarðanir á þessum grundvelli eins og við brugðumst við þegar staðreyndir lágu fyrir um hrynjandi stofn. Það er engin áhætta að taka hluta strax af væntanlegri hækkun næsta fiskveiðiárs. Verði kvótinn ekki hækkaður núna, þá kallar það nefnilega á aðra ákvörðun. Þeim sem eru búnir með þorskkvótann en eiga eftir kvóta í öðrum tegundum, þarf að banna að fara á sjó. Á öllum fiskimiðum er þorskur. Bátarnir eru flestir búnir með kvóta sinn í þorski og þurfa að ná meðaflanum. Hvernig eiga þeir að fara að því? Hvort vill hæstv. ráðherra frekar að komið verði með þorskinn að landi eða honum hent? Um það er spurningin. Mitt svar er að við eigum að hirða þorskinn en henda þrjóskunni í sjóinn.