Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 16:10:59 (4732)

1996-04-15 16:10:59# 120. lþ. 118.91 fundur 249#B stjórn fiskveiða# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[16:10]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. málshefjanda og þakka þeim hv. þm. sem um þetta hafa fjallað á mjög málefnalegan hátt og sett fram sjónarmið og rökstutt þau. Mér telst að fyrir utan okkur hv. málshefjanda hafi ellefu hv. þm. talað, sex þeirra mælt með því að halda við óbreyttan kvóta en fimm lagt til að gerðar verði lítils háttar breytingar.

Eitt af þeim sjónarmiðum sem hér hefur komið inn í umræðu og vissulega þarfnast umfjöllunar á hverjum tíma og við höfum mikið verið að fjalla um er áhættan af úrkasti á fiski. Ég minni á í því sambandi að sú umræða var jafnmikil þegar kvótinn var 200 þús. lestir. Það er auðvitað viss hætta á því að við látum undan því sjónarmiði að auka við kvótann vegna þess að ella hendi menn fiski, þá verði menn stöðugt fyrir meiri og meiri þrýstingi af því tagi og þurfi að endurtaka í sífellu slíkar ákvarðanir og á endanum verða menn komnir langt frá hinni vísindalegu ráðgjöf sem allir vilja byggja á. Þó að fyrsta skrefið feli ekki í sér stórvægileg frávik og litla áhættu, þá getur það leitt menn inn á þær brautir sem þeir ráða ekki við.

Herra forseti. Ég ítreka þau sjónarmið sem ég hef áður sett fram í þessu efni og þakklæti fyrir þá málefnalegu umræðu sem hér hefur farið fram.