Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:02:13 (4736)

1996-04-15 17:02:13# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:02]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst víkja örstutt að því sem hv. þm. nefndi síðast, kostnaði. Það er rétt hjá hv. þm., enn liggja ekki fyrir enn áreiðanlegar upplýsingar um heildarkostnað sem af Schengen-aðild landsins muni leiða. Það er enn verið að vinna að þarfagreiningu vegna þess og því má segja að enn sé umtalsverð vinna fram undan áður en menn geta fullyrt hvað Schengen-aðild muni kosta íslensk flugmál. Þess vegna hefur ríkisstjórnin haft fyrirvara varðandi þessa þætti.

Varðandi hitt atriðið þar sem hv. þm. vék sérstaklega að mér, tel ég að það sé ekki út af fyrir sig nauðsynlegt að taka afstöðu á þessu augnabliki til spurningar hans þó ég geri ekki lítið úr henni. Ég vildi gjarnan fá tækifæri til þess að ráðfæra mig við hæstv. utanrrh. og dómsmrh. um það mál. Ég vek þó athygli á því að endanlega ákvörðun varðandi fulla aðild að Schengen-svæðinu þarf ekki að taka fyrr en á næsta ári og þá væntanlega hefur ríkjaráðstefnan gengið nokkuð fram og menn séð í hvaða átt hún muni þróast og væntanlega vita á þeim tíma hvenær líklegt er að henni ljúki. En það allt saman er í mikilli óvissu enn þá. Mér finnst ástæða til þess að velta þessu máli fyrir mér en á þessu stigi tel ég ekki skynsamlegt að svara spurningunni beint.