Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:05:26 (4738)

1996-04-15 17:05:26# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Þótt það sé rétt sem ég sagði áðan og hæstv. dómsmrh. hefur sagt að við ætlum ekki að taka neinar endanlegar ákvarðanir nú, er það líka rétt hjá hv. þm. að með þessari ákvörðun erum við að stíga ákveðið skref í átt að Schengen-svæðinu. Það er alveg einboðið að við viðurkennum að það sé verið að því. Menn þurfa þess vegna að fylgjast mjög nákvæmlega með þróun mála og hafa kostnaðarþættina alveg klára áður en næstu skref verða stigin. En með hverju skrefi sem við stígum er sjálfsagt erfiðara að snúa til baka.