Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:23:14 (4740)

1996-04-15 17:23:14# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, GMS
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:23]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Til umræðu er mál er lýtur að því að fella niður eftirlit á sameiginlegum landamærum allmargra ríkja. Það virðist vera nokkur tilfinningahiti í þessu máli og af orðum þeirra sem mest hafa tjáð sig um þetta mál sýnist mér að það sé einkum tvennt sem þar stendur upp úr. Annars vegar eru það áhyggjur yfir því að ekki verði lengur um óhindraðan og frjálsan aðgang um landamæri milli Norðurlanda að ræða og svo eru aðrir sem hafa áhyggjur af því að ef menn fari í þetta samstarf, þá verði landamæraeftirlit almennt of lítið bæði hjá okkur og eins annars staðar í Evrópu.

Hvað sem þessum tilfinningahita líður, er staða málsins sú að bæði Íslandi og Noregi stendur nú til boða þátttaka á fundum í Schengen-samstarfinu þar sem við eigum að hafa málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar. Þar sem einungis er um áheyrnaraðild að ræða finnst mér sjálfsagt að menn taki þátt í því en ég gef mér það að með því að taka þátt í þessu, þá séu menn í rauninni að setja út fyrsta spilið og ætli sér, nema eitthvað óvænt komi upp, að halda þessu samstarfi áfram þannig að það leiði til frekari samvinnu í þessum málum.

Í mínum huga eru í máli þessu bæði jákvæðir og neikvæðir þættir sem þarf að vega og meta. Ég tel jákvætt að samningurinn heimilar Íslendingum frjálsa för um innri landamæri þessara aðildarríkja. Í mínum huga er það nokkuð mál að afnema það einkum og sér í lagi ef um Norðurlöndin er að ræða en einnig þykir mér það jákvætt að við getum farið frjálst um landamæri annarra Evrópuríkja.

Vegabréfsáritanir verða samræmdar og Schengen-ríkin hafa sammælst um lista yfir ríki þaðan sem ríkisborgarar sem koma vilja inn á Schengen-svæðið skulu háðir vegabréfsáritunum. En það er líka í gildi samningur eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom inn á milli íslenskra stjórnvalda við 19 ríki, sem við Íslendingar höfum nú þegar gert, um að ekki þurfi vegabréfsáritun þegar farið er milli landa. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að á árinu 1994 komu einungis 52 ríkisborgarar frá þessum 19 ríkjum til Íslands og á árinu 1995 voru þeir einungis 23 þannig að í mínum huga er þetta ekki stórt mál.

Ég tel jákvætt að það verður komið á stórauknu samstarfi lögregluyfirvalda. Í því felst að það verður aukið eftirlit með afbrotamönnum. Það er ljóst að fyrir lítið ríki eins og Ísland er það meiri háttar mál að ætla eitt og sér að fylgjast með því sem afbrotamönnum víða um heim dettur orðið í hug og þeirri kænsku sem þeir beita við afbrot sín. Ég tel það því jákvætt að við eigum núna möguleika á því að taka upp samstarf um þetta eftirlit. Það verður haft eftirlit með ferðum hryðjuverkamanna og annarra óæskilegra manna sem hingað mundu vilja koma þannig að við nytum þá góðs af samstarfi við þessar þjóðir um að stemma stigu við ferðum slíkra manna.

Fíkniefnaeftirlit verður stóraukið með þessu samstarfi ef við förum í það og ég tel það mjög til bóta að við tengjumst samstarfi hinna stóru þjóða sem reynslu hafa í því að reyna að stemma stigu við þessum óæskilega vágesti sem ríður húsum, bæði á Íslandi og í nálægum löndum. Það er jákvætt einnig að upplýsingabanka á að starfrækja til aðstoðar við landamæraeftirlit, víðtækt tölvukerfi sem við fáum aðild að. Ég hef ekki sömu áhyggjur af því og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson að upplýsingar úr þessum gagnabanka verði falar eða til dreifingar almennt þó að það sé vissulega mikið rétt að víða komast þeir menn inn í tölvubanka sem það ætla sér.

Að lokum sé ég það mjög jákvætt í þessu máli að í samstarfinu felst möguleiki til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Möguleiki gefst á því að fylgjast með frá upphafi þeirri þróun sem er að eiga sér stað í landamæraeftirliti, á gæslu á ferðum afbrotamanna og það að vera með í þróuninni frá upphafi. Mér finnst e.t.v. einn veigamesti þátturinn í alþjóðlegu samstarfi að við ekki lokum okkur af heldur höfum tækifæri til þess að fylgjast með frá upphaf þeirri þróun sem ekki er orðin heldur er að verða á hverjum tíma.

Neikvæðu þættirnir sem ég sé í málinu lúta fyrst og fremst að kostnaði við þátttökuna og mér sýnist að hann verði allnokkur. Fyrst er til að taka þann kostnaðarauka sem verður bæði vegna rekstrar- og stofnkostnaðar, einkum þó breytinga sem þarf að gera á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en lágmarkskostnaður þar er okkur sagður að verði um 150 millj. kr. bara vegna Schengen-samstarfsins. Við munum þurfa að taka þátt í almennum og sameiginlegum kostnaði við rekstur kerfisins í Brussel og Strassborg. Ég hef hvorki séð tölur um stærðargráður á þessum kostnaði né um skiptireglur milli landa. Ég óttast að það sé svo að við getum lent í því að það sé jafn kostnaður, þ.e. sami kostnaður sem dreifist á hvert einasta land. Ef svo er, þá getur þetta orðið töluvert fyrir okkur. Ef þetta hins vegar skiptist eftir höfðatölu sem víða er praktíserað, þá er þetta væntanlega ekki stór biti fyrir Ísland og Íslendinga.

Mér finnst neikvætt og hef af því nokkrar áhyggjur hvað stjórnvöld telja sig þurfa að fjölga ríkisstarfsmönnum ef farið verður í Schengen-samstarfið. Þessi aukni mannafli á einkum að koma til vegna vegabréfaeftirlits vegna þessarar SIRENE-skrifstofu. Ég kann ekki að bera það fram og nota skammstöfunina. Þó að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi farið með heiti þessarar stofnunar hér áðan, þá ætla ég að leyfa mér að kalla þetta bara SIRENE-skrifstofurnar. Það þarf aukinn mannafla við útlendingaeftirlit og svo stendur til að ráða fulltrúa að sendiráði Íslands í Bonn. Ég hefði ætlað að það mætti spara nokkuð við svona samstarf, við svona sameiginlegt eftirlit og þess vegna kemur mér það spánskt fyrir sjónir að nú þurfi enn að fjölga ríkisstarfsmönnum. Allnokkur er fjölgunin sem orðið hefur, hæstv. dómsmrh., á ríkisstarfsmönnum frá því að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru sett ef ég man rétt. Þá voru þeir 8 þúsund en eru nú 25 þúsund þannig að ég held að hæstv. dómsmrh. hljóti að geta fundið einhverja ríkisstarfsmenn sem megi færa til yfir í þessi störf frekar en að fjölga nú enn.

Veigamesti þátturinn í ... (Dómsmrh.: Ábendingar eru vel þegnar.) Já, ég skal hafa það í huga og þigg það með þökkum að mega benda á það. Veigamesti þátturinn í mínum huga þegar þetta mál er skoðað og sem kannski ræður mestu þegar upp er staðið um þá afstöðu sem ég mun hafa í þessu máli er sá að ekki verði raskað starfsgrundvelli Flugleiða á Keflavíkurflugvelli. Flugleiðir hafa verið með mjög merkt starf í því að byggja upp millilendingarflugvöll á Keflavíkurflugvelli þar sem fram fara skipti á farþegum milli véla sem koma frá Bandaríkjunum eða Evrópu. Ég hef af því vissar áhyggjur að þessi breyting, ef við förum yfir í þetta Schengen-samstarf, þýði að flugáætlanir Flugleiða raskist. Ég sé í því plaggi sem til okkar hefur verið dreift frá Framkvæmdasýslu ríkisins að þar er sagt að á álagstímum Flugleiðavéla sé hæfilegt að gera ráð fyrir afgreiðslu á fjórum fullsetnum Boeing-757 200 flugvélum á sama tíma. Þetta þýðir að samtals 760 farþegar þurfa á þjónustu að halda í þjónusturými. Jafnframt er sagt að það sé mat Framkvæmdasýslunnar eða yfirmanns hennar að hæfilegt sé að miða stærð þjónusturýmis utan Schengen-svæðisins miða stærðina við það að 500 farþegar geti notið þar þjónustu með góðu móti samtímis. Ég vísa til þess að í heimsókn starfsmanna Flugleiða til utanrmn. var upplýst að þeim þætti sá tími sem þeim væri ætlaður til að skoða vegabréf farþega sem um völlinn færu fullknappur og mætti þar ekkert út af bera ef flugáætlanir og flugvélar félagsins ættu ekki að tefjast þar. Við hins vegar vitum að það þarf að stækka Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Á þessu ári fer fjöldi farþega sem þar fer um, væntanlega yfir milljón farþega á ári og menn búast við mikilli farþegaaukningu þar á komandi árum samfara þeim aukna fjölda sem almennt mun ferðast með flugvélum á komandi áratug. Ég held þess vegna að það sé ekki frágangssök þó að það kosti nokkuð að breyta flugstöðinni fyrir Schengen-samkomulagið ef við getum gert það á sama tíma og við vindum okkur í að stækka og lagfæra þessa flugstöð.

Mér þykir samt að afstaða Flugleiða til málsins, þ.e. hvort þeir styðja þetta eða ekki hafi ekki komið nægilega skýrt fram og ég mundi vilja spyrja hæstv. dómsmrh. að því hvort fyrir liggi greinargóð afstaða Flugleiða og hvaða afstöðu þeir hafa til málsins, hvort þeir hafi af þessu áhyggjur eða hvort þeir séu sammála því mati sem kemur frá Framkvæmdasýslu ríkisins, að hægt sé að leysa þessi mál með þeim breytingum sem þar hafa verið lagðar til.

Niðurstaða mín í þessu máli er sú að ég tel að það hljóti að vera unnt að finna lausnir á vanda Flugleiða í þessu máli vegna hugsanlegra tafa á afgreiðslu flugvéla. Eftir að hafa vegið og metið bæði jákvæða og neikvæða þætti sem ég hef farið yfir þá vega jákvæðu þættirnir þyngra í mínum huga en þeir neikvæðu og því tel ég að það eigi að halda áfram viðræðum sem miða að því að við gerumst aðilar að Schengen-samstarfinu svo fremi að ekki koma fram nýjar upplýsingar sem gera aðild Íslands óhagstæðari en núverandi upplýsingar gefa til kynna.