Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:35:16 (4741)

1996-04-15 17:35:16# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:35]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var athyglisvert að hlýða á hvernig hv. þm. nálgast þetta mál til að komast að niðurstöðu. Það eru nokkrar athugasemdir og ábendingar sem ég vildi gera vegna ræðu hans. Í fyrsta lagi er þetta viðhorf að til þess að geta farið frjálst milli landa, þá sé skilyrðið að menn þurfi ekki að sýna vegabréf. Ég tel í raun að ferðafrelsi sé í heiðri haft þó að til þess þurfi að koma að menn dragi upp vegabréfið á meðan engar óeðlilegar hindranir með vegabréfaáritun eða aðrar hindranir eru reistar við slíku.

Í öðru lagi taldi þingmaðurinn að vegabréfasamningar eða möguleikar á því að fella niður kröfu um vegabréfsáritun væri ekki stórt mál af því að það væru svo fáir sem komu frá þessum 19 ríkjum sem um væri að ræða. Það skyldi ekki vera að það væru einmitt þróunarmöguleikar í samskiptum við þessi ríki ef menn ná að byggja m.a. á frelsi frá vegabréfaáritunum eins og gert hefur verið. Ég vek athygli hv. þm. á því að þetta eru á annað hundrað ríki sem við skuldbindum okkur til að viðhalda vegabréfaáritunarkröfu. Ég er með þennan lista, reyndar kominn frá Faremo, dómsmálaráðherra Noregs, sem hefur að geyma á annað hundrað ríki sem við skuldbindingum okkur til að aflétta ekki kröfunni um vegabréfaáritun. Veikir þetta ekki þróunarmöguleika Íslands í samskiptum við umheiminn að binda sig með þessum hætti fyrir utan það sem við þurfum að rifta?

Síðan er það að fíkniefnaeftirlitið verði stóraukið. Það er rétt að menn eru að reyna að þétta ytri landamærin en menn eru jafnframt að opna í auknum mæli fyrir allt innan þeirra og það fer fram heilmikil úrvinnsla og framleiðsla fíkniefna innan Schengen-landanna og ekki síst það skapar vandann. Ég sé ekki hvernig sú niðurstaða er komin hjá hv. þm. að möguleikinn til þátttöku í alþjóðlegu samstarfi aukist með þessum samningum. Þá er ég að horfa til heimsins alls.