Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 17:39:35 (4744)

1996-04-15 17:39:35# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, GMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[17:39]

Gunnlaugur M. Sigmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að það kostar peninga að vera lítil þjóð og varðandi þetta með fíkniefnaeftirlitið er ég þeirrar skoðunar að það sé afar erfitt fyrir litla þjóð að ætla að halda utan um öll þau gögn sem nauðsynlegt er til þess að stemma stigu við þeim vágesti að hann berist hingað í auknum mæli. Þess vegna tel ég að þetta samstarf geti gefið okkur tækifæri til þess að ná lengra í þessari baráttu en við höfum náð til þessa, m.a. þessi margfrægi tölvubanki, sem við höfum rætt um hér, muni aðstoða í því sambandi.

Almennt um alþjóðlegt samstarf, hvort heldur það heitir GATT eða NATO eða eitthvað annað, þá er alveg ljóst að það er samstarf þjóða um sameiginleg mál og lýtur þá að því að menn meðhöndla þá sem standa utan samstarfsins með öðrum hætti. Það er ekki neinn nýr sannleikur í því.