Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:06:22 (4746)

1996-04-15 18:06:22# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:06]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu í annað sinn á þessu þingi svokallað Schengen-samstarf. Frá því að málið var rætt á þessum vettvangi í nóvember sl. hefur það skýrst að verulegu leyti, alla vega fyrir mér sem hef fengið upplýsingar um það bæði í utanrmn. og allshn., svo og á þeirri ráðstefnu sem haldin var um málið í Keflavík. Í fyrstu virtist málið liggja þannig að margt mælti með því að gerast aðilar að samstarfinu, ekki síst það að viðhalda norræna vegabréfasambandinu. Pólitíska spurningin um tengslin við Evrópu kom lítið upp á yfirborðið í umræðunni í fyrstu og með því að tengja þetta fyrst og fremst norræna vegabréfasambandinu þá náðist að koma málinu inn í umræðuna án þess að tengja það um of stærri og viðkvæmari pólitískum spurningum. Ég tel að sú umræða hafi verið fræðandi og þakka þessa skýrslu þó að ljóst sé að umræðan í dag muni ekki breyta þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að þiggja áheyrnaraðild að Schengen-samstarfinu á fimmtudaginn kemur eða þann 18. apríl, frá og með 1. maí 1996.

Megininntak þessara tveggja skýrslna hefur verið lýsing á því hvað í samstarfssamningnum felst en lítið er á skýrslunum að græða varðandi hinar pólitísku spurningar málsins. Eins og málið var kynnt fyrst var það helst kostnaðurinn, ekki síst kostnaðurinn við Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem fór fyrir brjóstið á þingmönnum. Nú hefur það mál tekið skrýtna stefnubreytingu að því leyti að ný áætlun hefur lækkað þann kostnað, en upphaflega var reiknað með að hann yrði yfir milljarð, og ég hjó eftir því í ræðu hæstv. dómsmrh. að forsendur eða áætlanir Framkvæmdasýslu ríkisins hafa verið staðfestar og þykja raunhæfar. Þetta þótti mér með ólíkindum að fá kostnaðaráætlanir frá tveimur aðilum þar sem munurinn var eins mikill og raun ber vitni. Kostnaðurinn við breytingarnar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar er nú sagður vera 400 millj. kr. og þar af eingöngu 150 millj. sem sérstaklega tengjast Schengen-samstarfinu. Ég veit ekki hversu raunhæfar þessar tölur eru en fagna því að þær teljast svo vera á þessari stundu en væntanlega verður það framtíðin ein sem sker úr um það mál.

En þar með tel ég tímabært að huga nánar að öðrum álitamálum. Ef litið er fyrst á kostnaðarhliðina þá finnst mér upplýsingar enn vera mjög óljósar og því vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. hvenær nánari upplýsingar um kostnað muni liggja fyrir. Og þar með vona ég að það verði áður en þetta mál kemur til lokaákvörðunar á Alþingi. Einnig vil ég spyrja í þessu sambandi vegna þess að svo var ekki á síðasta fundi sem ég átti með Flugleiðum hvort Flugleiðir hafa lagt blessun sína yfir þær áætlanir sem nú eru fyrirhugaðar, framkvæmdir sem fyrirhugað er að fara í á Keflavíkurflugvelli.

Ef litið er frá kostnaði og að öðrum álitamálum vil ég fyrst taka fram að Kvennalistinn hefur ekki sem samtök tekið afstöðu til þessa máls enda er enn margt óljóst um það hvað hangir á spýtunni. Það eru einkum þrjú pólitísk álitamál sem mér finnst ástæða til að fá nánari upplýsingar um.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. um þau ummæli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í umræðunni áðan að norræna vegabréfasambandið muni halda óháð okkar þátttöku í Schengen. Það er þá væntanlega vegna þess að öll Norðurlöndin standi fyrir utan eða að Ísland og Noregur hafi vegabréfasamband við hin þrjú Norðurlöndin sem eru í ESB og væru inni í Schengen. Það var minn skilningur á ráðstefnunni í Keflavík að þessir valkostir væru ekki inni í myndinni og því vil ég spyrja hvort þessi skilningur telst enn réttur. Fyrir mér er mjög mikilvægt að viðhalda norræna vegabréfasambandinu. Það væri æskilegt að útvíkka slíkt samstarf til fleiri Evrópulanda en vissulega fer það eftir því hvað fleira hangir á spýtunni.

Í öðru lagi vil ég taka undir það sjónarmið að þetta samstarf orki tvímælis ef það veikir eftirlit vegna fíkniefnasmygls eða fíkniefnasölu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið í skýrslu ráðherra og umræðum á vettvangi utanrmn. og allshn. bendir að mínu mati fleira til að þetta verði ekki þannig, þ.e. mér virðist að þau gögn sem fyrir liggja megi frekar túlka þannig að þetta eftirlit styrkist við inngönguna í Schengen. Því vil ég spyrja hvort þetta mál verði kannað sérstaklega, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði áðan, og hvort það verði t.d. rætt á þeim fundi sem hæstv. dómsmrh. er að fara á núna á fimmtudaginn kemur.

Í þriðja lagi vil ég koma að e.t.v. viðkvæmasta pólitíska atriðinu, nefnilega hvaða áhrif þetta samstarf við Schengen muni hafa fyrir Ísland, og þá meina ég pólitískt séð gagnvart Evrópu. Það kom skýrt fram í máli hæstv. forsrh. að með þessum samningi sé verið að stíga ákveðin skref í áttina að Schengen-svæðinu, eins og hann orðaði það. Hæstv. utanrrh. sagði einnig í sjónvarpi fyrir nokkrum dögum að stefnt væri að fullri aðild að Schengen. Nú er öllum ljóst að eingöngu ESB-lönd eiga möguleika á að fá fulla aðild að Schengen-samstarfinu og það var því mín túlkun að væntanlega hafi hæstv. utanrrh. meint fulla aðild að samstarfssamningnum en ekki að Schengen-samninngum sjálfum. Því vil ég spyrja, og fá það alveg skýrt, hvort þessi pólitíska velvild Schengen-ríkjanna gagnvart Íslandi og Noregi eigi sér forsendur innan EES-samningsins eða, eins og hér hefur verið látið að liggja og beinlínis haldið fram, að forsendurnar tengist fyrst og fremst norræna vegabréfasambandinu. Til dæmis langar mig að spyrja hvað önnur fyrrverandi EFTA-lönd ætla að gera. Fá þau svona samning? Er þetta gert vegna þess að veðjað er á það blint eða sjáandi að Ísland og Noregur muni breyta afstöðu sinni til aðildar að Evrópusambandinu? Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál sé rætt af pólitískri hreinskilni þannig að ákvörðun Íslands um framtíðarsamstarf við Evrópu verði tekin á réttum forsendum en ekki fölskum, að ekki verði búið að smygla þjóðinni inn í ESB bakdyramegin að henni forspurðri.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. dómsmrh. nánar út í hvaða skilyrði Ísland verður að uppfylla til að þiggja áheyrnaraðild þann 18. apríl nk. Eru þau öll uppi á borðinu eða er þetta samkomulag sem ekki hefur í för með sér neinar kvaðir eða skilyrði? Ef allt er uppi á borðinu og engir duldir hagsmunir eru í húfi sem þjóðin fær ekki að vita um þá tel ég á þessari stundu að það sé skynsamlegt að þiggja þessa aðild nú vitandi að hægt er að hoppa af vagninum síðar. En vissulega væri æskilegra að lokaákvörðun þyrfti ekki að taka fyrr en eftir að ríkjaráðstefnu ESB er lokið. Því vil ég spyrja að lokum hvort ljóst sé að svo verði ekki. Var það rétt skilið hjá mér áðan eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. dómsmrh. að lokaákvörðun verði að liggja fyrir í árslok 1996, að málið komi þá til lokaákvörðunar Alþingis? Ef svo er að hvaða leyti geta pólitísku áhrifin verið ljós þá áður en ríkjaráðstefnu ESB lýkur?