Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:34:46 (4748)

1996-04-15 18:34:46# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:34]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra leitaðist við að svara fyrirspurnum sem ég bar fram við hann og þakka ég þá viðleitni. Spurningin var um norræna vegabréfasambandið og hina pólitísku stöðu að því er varðar þann möguleika að Ísland eða Noregur kysu að láta staðar numið að því er varðar Schengen. Það liggur ekki á þann veg sem mér finnst hæstv. ráðherra túlka. Ég met það með öðrum hætti vegna þess að ég tek ummæli fremstu forustumanna og málsvara ríkisstjórna á Norðurlöndum alvarlega eins og þau eru mælt nú fyrir fáum mánuðum af hálfu forsætisráðherra Danmerkur á þingi Norðurlandaráðs. Það var alveg skýrt að þarna yrðu Norðurlöndin að vera öll samferða í mati sínu, hvert og eitt, jákvætt gagnvart Schengen-aðild. Sama sagði sænski ráðherrann sem ég vitnaði til sömuleiðis. Ef eitthvert innihald er í þessum yfirlýsingum á matið á því hvort viðeigandi niðurstaða hafi náðst ekki að vera þeirra heldur okkar sjálfra sem þýðir að ef við kjósum að segja nei er það niðurstaða sem hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa lofað að virða og halda í gildi hinu norræna vegabréfasambandi. Þannig liggur málið. Það hefur ekkert komið fram annað um þetta efni frá því að þessar yfirlýsingar voru gefnar á Norðurlandaráðsþingi og þjóðþingi.

Í sambandi við fíkniefnamálið kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á því að mér finnst að það sé afar lítil innstæða í þeim hughreystingum sem fram hafa komið hjá hæstv. ráðherra. Upplýsingakerfin eiga fyrst og fremst að taka til ytri landamæranna, að vera þéttriðið net á ytri landamærum til þess að koma í staðinn fyrir áhrifin af því að leggja síðan niður eftirlit á landamærum einstakra ríkja og það leysir ekkert málið að því er varðar dreifingu og umferð fíkniefna innan svæðisins sjálfs sem eiga upptök sín þar að vísa til þessara upplýsingakerfa og það er þar sem hundurinn liggur grafinn. Mér finnst það liggja ósköp skýrt fyrir í afstöðu Frakka eins og þeir hafa litið á málin. Þeir telja þetta algerlega óviðunandi en á sama tíma ætlum við að ana út í þetta.