Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:40:35 (4751)

1996-04-15 18:40:35# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:40]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það sjálfstætt mat okkar hvort það er fýsilegur kostur að gerast aðilar að Schengen-samstarfinu á þeim grundvelli sem mun liggja fyrir þegar samningaviðræðum lýkur. Það meta það engir aðrir fyrir okkur en við þurfum að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir því hvaða afleiðingar það kann að hafa í för með sér. Ef við ætlum einir að taka slíka afstöðu á Norðurlöndunum sýnist mér nokkuð einsýnt að niðurstaðan yrði sú að norræna vegabréfasambandið væri úr sögunni og við værum að einangra okkur í því samstarfi og því lögreglusamstarfi sem því hefur fylgt. Ég held að við hljótum að þurfa að taka það með í reikninginn þegar við tökum þessa sjálfstæðu ákvörðun að sú aðstaða væri mjög líklega uppi.