Húsnæðisstofnun ríkisins

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 19:04:24 (4758)

1996-04-15 19:04:24# 120. lþ. 118.11 fundur 407. mál: #A Húsnæðisstofnun ríkisins# (félagslegar eignaríbúðir) frv. 76/1996, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[19:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, sbr. lög nr. 12/1994, nr. 58/1995 og nr. 150/1995. Þetta frv. er flutt til að leysa úr þeim vanda sem sum sveitarfélög eiga við að glíma vegna félagslegra íbúða sem þeim ekki tekst að nýta. Út af þessum vanda skipaði ég nefnd á síðasta hausti sem leita skyldi leiða til lausnar á þessum vanda. Í nefndina voru skipaðir Ingi Valur Jóhannsson deildarstjóri, Magnús B. Jónsson sveitarstjóri, Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjmrh., og Magnús Stefánsson alþingismaður sem var formaður nefndarinnar. Nefndin kannaði stöðu þessara mála hjá sveitarfélögum í landinu og kom þar fram að ástand þessara mála er mjög mismunandi milli sveitarfélaga, þ.e. vandinn er staðbundinn eftir landsvæðum og sveitarfélögum. Segja má að þetta endurspegli að miklu leyti almennt ástand í atvinnu- og byggðamálum víða um land. Í sumum sveitarfélögum blasa við mikil og erfið vandamál þar sem viðkomandi sveitarfélög sitja uppi með fjöldann allan af félagslegum íbúðum og þar sem ástandið er verst hefur hvorki tekist að selja þær né leigja og íbúðirnar því staðið auðar og ónotaðar. Niðurstaða athugunar sem Húsnæðisstofnun gerði í 59 sveitarfélögum í nóvember sl. sýnir að 102 íbúðir höfðu staðið auðar lengur en tvo mánuði, 53 lengur en sex mánuði og 25 lengur en eitt ár.

Í frv. eru lagðar til þrjár leiðir til lausnar. Í fyrsta lagi að heimilt sé að breyta félagslegum eignaríbúðum í félagslegar kaupleiguíbúðir. Skilyrði er að fullreynt sé í sveitarfélaginu að íbúð verði ekki seld að svo stöddu. Við þær kringumstæður er lagt til að sveitarstjórn geti sótt um heimild til húsnæðismálastjórnar til að breyta eignaríbúð í félagslega kaupleiguíbúð. Með því fær sveitarstjórn aukið svigrúm til að nýta íbúðina auk þess sem kjörin á íbúðinni í leigu eru hagstæðari en á eignaríbúðum, þ.e. 1% vextir og lánstími 50 ár. Í því sambandi skal lögð áhersla á, með hliðsjón af því að Byggingarsjóður verkamanna stendur illa um þessar mundir, að girt verði fyrir það í frv. að slík ráðstöfun hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir sjóðinn. Þannig verður þessu heimildarákvæði einungis beitt innan fjárhags- og útlánaáætlunar Byggingarsjóðs verkamanna. Eins og rakið er í frv. hefur verið reiknað út að sex slíkar tilfærslur milli lánaflokka samsvari einni meðalíbúð með 5,6 millj. kr. láni.

Jafnframt því sem heimilað verði að liðka til hjá sveitarfélögum með því að breyta eignaríbúðum í félagslegar kaupleiguíbúðir er lagt til að sveitarstjórn geti sótt um heimild til húsnæðismálastjórnar til að víkja frá gildandi tekjumörkum einstaklinga. Skilyrði fyrir fráviki frá því grundvallaratriði sem tekjumörkin eru er að sveitarstjórn sýni fram á að það sé eina færa leiðin til þess að íbúð verði úthlutað. Framkvæmdin verði sú að sveitarstjórn sæki um slíka heimild til húsnæðismálastjórnar. Verði heimildin veitt er mikilvægt að hún sé almenns eðlis en taki ekki til einstakra mála. Því skiptir miklu máli að sveitarstjórn kynni hin breyttu tekjumörk fyrir íbúum sveitarfélagsins og er því lögð á þau sú skylda í frv. Hversu mikil rýmkunin er er ákvörðunaratriði hjá húsnæðismálastjórn með hliðsjón af aðstæðum í hverju sveitarfélagi fyrir sig og sama gildir um hversu lengi rýmkunin varir. Úthlutun íbúða á þessum forsendum hefur ekki vaxtahækkun í för með sér. Hins vegar hefur beiting þessa heimildarákvæðis áhrif á framkvæmdalán til þess sama sveitarfélags næstu ár á eftir. Þannig er gert ráð fyrir því að viðkomandi sveitarfélag sé útilokað frá því að sækja um framkvæmdalán í næstu sex ár frá því að síðast er úthlutað íbúð samkvæmt undanþágunni. Rökin fyrir þessu eru augljós. Óseldar félagslegar íbúðir gefa vart tilefni til að þörf sé á fleiri félagslegum íbúðum í sveitafélaginu, a.m.k. ekki í bráð.

Loks hefur frv. að geyma sérreglu um frestun á afborgunum lána Byggingarsjóðs verkamanna þegar sveitarstjórn hefur keypt inn félagslega íbúð sem ekki verður nýtt vegna snjóflóðahættu. Með stöðu sjóðsins í huga þótti rétt að einskorða frestun á afborgun lána við íbúðir á snjóflóðahættusvæði. Eins og rakið er í frv. voru í janúar 1996 124 félagslegar íbúðir á skilgreindum hættusvæðum.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi, þá er þetta frv. einungis þess eðlis að það á að leysa vanda þeirra sveitarfélaga sem í mestum kröggum eru vegna auðra félagslegra íbúða og þetta er samkvæmt áliti þeirrar nefndar sem sett var í málið. Ég vil þakka nefndinni vel unnin störf en hún heldur áfram að vinna og er að reyna að leggja línur fyrir frekari breytingar á félagslega kerfinu, hvaða braut við eigum að þræða þar í framtíðinni og eftir hvaða aðferðum við eigum að fara. Eins og fram kom í frv. um reynslusveitarfélög sem ég mælti fyrir fyrir nokkrum dögum og er til meðferðar hjá hv. félmn., þá eru nokkur reynslusveitarfélaganna að reyna að feta sig inn á nýjar brautir í félagslega kerfinu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félmn.