Húsnæðisstofnun ríkisins

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 19:30:29 (4761)

1996-04-15 19:30:29# 120. lþ. 118.11 fundur 407. mál: #A Húsnæðisstofnun ríkisins# (félagslegar eignaríbúðir) frv. 76/1996, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[19:30]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir beindi beint og óbeint til mín spurningum varðandi umrætt málefni. Fyrst um þróun mála í sveitarfélaginu Bolungavík sem tiltekið var. Það má lesa út úr töflunni sem er í greinargerð frv. að breytingin sem þar hefur orðið virðist hafa komið til á sl. ári því það kemur fram í úttektinni sem var gerð í nóvember sl. að þá hafi 27 íbúðir staðið auðar lengur en í tvo mánuði, 11 íbúðir lengur en sex mánuði en aðeins ein lengur en eitt ár. Það má því ætla að þessi þróun hafi orðið á síðasta ári. Það er hins vegar rétt að taka fram að ástandið þar hefur eitthvað lagast síðan sem betur fer og er það ánægjuefni. Ég hef því miður ekki nýjustu upplýsingar um stöðu mála í þessu tiltekna sveitarfélagi. En vissulega má lesa út úr þessum upplýsingum ákveðna sögu sem tengist íbúa- og byggðaþróun almennt á landsbyggðinni sérstaklega.

Í vinnu þeirrar nefndar sem ég hef setið í fyrir hönd félmrh. hæstv. hefur verið leitast við að skoða leiðir til að nýta íbúðir sem fyrir hendi eru í sveitarfélögum víðsvegar um landið. Frv. sem hér liggur fyrir er vísir að þeim niðurstöðum sem menn hafa nú þegar komist að. Ég tel að þeirri vinnu sé alls ekki lokið enda er nefndin enn að störfum.

Ég get ekki svarað því nákvæmlega hve mörg sveitarfélög muni nýta sér þau úrræði sem koma fram í frv. en ég hygg þó að það séu æðimörg sveitarfélög sem muni með einhverjum hætti nýta sér það og m.a. hvað varðar rýmkun á tekjumörkum o.s.frv. Ég er því nokkuð viss um að þau úrræði munu koma til lausna líklega víðast hvar.

Að öðru leyti get ég nú því miður ekki að svo stöddu veitt nýrri upplýsingar, en mun í starfi nefndarinnar undir forustu hv. þm. að sjálfsögðu taka þátt í þeirri vinnu og ég geri ráð fyrir að við munum kalla eftir upplýsingum í því starfi.