Húsnæðisstofnun ríkisins

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 19:33:10 (4762)

1996-04-15 19:33:10# 120. lþ. 118.11 fundur 407. mál: #A Húsnæðisstofnun ríkisins# (félagslegar eignaríbúðir) frv. 76/1996, KHG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[19:33]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð um efni frv. sem hér er til umræðu. Það er nú ekki mjög viðamikið og gefur ekki tilefni til mikilla umræðna um stefnu í húsnæðismálum. Engu að síður er hér um að ræða breytingar sem rétt hefur þótt að flytja og sýnt í greinargerð með frv. að aðstæður eru fyrir hendi sums staðar þannig að nauðsynlegt er að bregðast við þeim með breytingum á lagaúrræðum.

Ég vil segja almennt um efnið í frv. að það er eðlilegt af hálfu félmrh. og þeirra sem fara með þennan málaflokk að leitast við að nýta húsnæði sem byggt hefur verið á grundvelli þessara laga. Ef aðstæður koma upp sem eru að sumu leyti nýjar og menn hafa kannski ekki séð áður í 60 ára sögu þessa málaflokks, félagslegra íbúða, þá verða menn auðvitað að bregðast við því aðalatriðið er að menn liggja með fjárfestinguna í íbúðahúsnæðinu og það verður að koma því í notkun ef einhver ráð eru til þess. Það þýðir að menn verða að vera tilbúnir að breyta eða rýmka lagarammann eins og hann er núna, til að ná þessum markmiðum því ég hygg að ekkert sé vitlausara en að byggja húsnæði og láta það standa autt af því að menn vilja ekki breyta lögum eða skilyrðum laga um það hverjir geta nýtt sér þessar íbúðir. Það hefur verið lagður gríðarlega mikill peningur í uppbyggingu í þessum málaflokki á undanförnum árum og menn hljóta fyrr eða síðar að þurfa að glíma við vandamál af þessu tagi þar sem svo miklar breytingar eru á búsetu hér á landi.

Ég hygg að það sé fátítt í Evrópu að það hafi verið jafnmiklar breytingar á íbúðarþróun í nokkru landi eins og hér. Í flestum þeim ríkjum sem ég hef reynt að kynna mér hvernig menn standa að málum á pólitíska sviðinu varðandi byggðamál þá eru menn uppi með viðamiklar aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til að jafna eða dreifa jafnar íbúaþróun í viðkomandi löndum. En hér á landi er afar lítið um viðbrögð af því tagi. Það er miklu fremur að stjórnvöld líti á það sem sitt hlutverk að hjálpa til við að fá fólk til að flytja af landsbyggðinni hingað suður til höfuðborgarsvæðisins. Því sitjum við uppi með þá þróun að hér er ákaflega hröð breyting. Sem dæmi má nefna af því að hér var minnt á það ástand sem var á síðasta ári í mínum heimabæ, að þar hefur fólki fækkað á einum áratug eða tíu árum úr rúmlega 1.300 manns niður fyrir 1.100, þ.e. um 250 manna fækkun á ekki lengri tíma en þetta. Það kemur einfaldlega fram strax bara í því að það er ekki til nógu margt fólk sem uppfyllir ákvæði laganna til að fylla þær íbúðir sem byggðar hafa verið á undanförnum 30--40 árum að mestu leyti í því byggðarlagi. Reyndar eru elstu félagslegu íbúðirnar þar frá því fyrir 1950 en mest var byggt á áttunda áratugnum, íbúðir í svokölluðu leigu- og söluíbúðakerfi. Þetta er auðvitað vandamál sem menn munu þurfa að glíma við annars staðar líka því þessi þróun, þó hún sé ekki jafnmikil og þarna hefur verið, þá er hún víðar í þessu sama kjördæmi og reyndar víðar á landsbyggðinni þannig að ég spái því að innan ekki langs tíma þurfi menn að glíma við það vandamál að hafa húsnæði en ekki fólk. Hvað ætla menn að gera í því? Það er mjög stór spurning sem menn þurfa að skoða í víðu samhengi, miklu víðara en þetta frv. gefur tilefni til.

Síðan hefur líka annað gerst sem ýtir fólki dálítið út úr þessum félagslegu íbúðum. Það eru lagabreytingar sem hafa verið gerðar á síðustu svona 3--4 árum sem hafa virkað afar illa fyrir þá sem búa í íbúðunum á þann veg að íþyngja þeim mjög. Kostnaðurinn við að búa í íbúðunum hefur hækkað svo mikið. Það er vegna vaxtahækkana á lánum Byggingarsjóðs verkamanna og það er vegna breytinga á ákvæðum laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, en ákvæði þeirra laga voru þannig að greiðendur voru varðir fyrir hækkunum á greiðslubyrði af völdum vaxtahækkana. Þetta var afnumið 1991 þannig að vaxtahækkunin kom að fullu fram í hækkaðri greiðslubyrði strax. Þessi atriði og síðan sífellt krukk í vaxtabótakerfið og skerðingar á því hafa gert það að verkum að það er orðið mikið dýrara en áður var á mánuði að borga af þessum íbúðum. Síðan gerist það líka, bæði á Vestfjörðum og víðar, að tekjur manna lækka því þær eru svo mjög tengdar afkomu í sjávarútvegi og því sem heimilt er að veiða í þroski þannig að breytingar á þessu hafa mjög sterk áhrif á greiðslugetu fólks, sérstaklega í þessum íbúðum. Þessi tvö atriði ásamt þriðja atriðinu sem kemur á móti og er verðlækkun íbúða á almennum markaði, spila öll saman þannig að það verður fýsilegra að ráðast í kaup á almennum markaði en að reyna að berjast í því að borga áfram af þeirri íbúð sem viðkomandi á í félagslega íbúðakerfinu. Ég veit um þó nokkuð mörg dæmi til þess í minni heimabyggð að fólk komst að þeirri niðurstöðu að það var ódýrara að fá íbúðina innleysta og kaupa sér jafnvel sambærilega íbúð á almennum markaði í húsbréfakerfinu. Það var einfaldlega ,,kalkúlasjón``. Menn reiknuðu þetta bara út og komust að þeirri niðurstöðu að aðstæðurnar voru orðnar þannig að þetta var hagkvæmara. Þetta er byggt á mjög lágu gangverði íbúða á almennum markaði sem menn vona auðvitað að braggist þegar fram líða stundir og atvinnuástand batnar. Kannski verður það fyrr en síðar.

Almennt vil ég segja að ég styð þær breytingar sem menn eru að sækjast eftir að fá. Ég vil þó segja um þetta mál og þá sérstaklega a-hluta 1. gr. að mér finnst núverandi löggjöf um þessi málefni vera allt of smásmuguleg. Það er allt of mikið sett í lagatexta af einföldum útfærsluatriðum. Það á að mínu viti að fela framkvæmdarvaldinu, ráðherra og húsnæðismálastjórn að framkvæma eftir einhverjum meginlínum sem dregnar eru upp í lagatexta. Þessi löggjöf sérstaklega er þvílíkur saumaskapur að það er ekki á færi nema allra iðnustu manna að lesa sig gegnum hana og viðhalda kunnáttu sinni því það er sífellt verið að breyta þessum lögum. Það er gert að jafnaði tvisvar á ári. Það er vegna þess hvað hún er samansaumuð í smáatriðum og það þarf oft að breyta, flytja lagafrv. til að gera tiltölulega einfaldar breytingar sem í öðrum lögum er á valdi ráðherra að hrinda í framkvæmd. Ég vil nú mælast til þess, því ég hygg að það sé verið að huga að heildarendurskoðun þessara laga, að ráðherra beiti sér fyrir því að þessu sjónarmiði verði gefinn gaumur þannig að löggjöfin verði meira stefnumótandi og dragi upp meginlínur og hverfi frá þessum smáatriðum sem dregin eru upp í núverandi löggjöf nánast í hverri grein.

Af því að það hefur þróast þannig í félagslega íbúðalánakerfinu að hafa mismunandi lánaflokka og mismunandi eignarform þá er mjög skynsamlegt að mínu viti að hafa almenna heimild fyrir framkvæmdarvaldið og stofnunina sem sér um framkvæmd laganna til að flytja íbúðir á milli einstakra flokka. Það á að ráðast eftir aðstæðum þeirra sem búa í íbúðunum hvaða form er valið undir þá íbúð hverju sinni, hvort hún er eignaríbúð, hvort hún er leiguíbúð, kaupleiguíbúð, almenn eða félagsleg kaupleiguíbúð. Þetta verður að vera sveigjanlegt eftir þörfum þess sem fær íbúðina og notar hana hverju sinni. Ég tel skynsamlegt að löggjafinn fari út á þá braut að hafa þetta ákvæði þannig að það sé almennt og síðan á valdi framkvæmdaaðila að velja besta formið fyrir viðkomandi einstakling.

Þessi brtt. a-liðar 1. gr. gengur miklu skemur en ég er að lýsa. En það breytir því ekki að hún gengur þó til réttrar áttar og mér finnst eðlilegt og sjálfsagt að gera þá breytingu. Sama má segja um b-liðinn. Það er að vísu aðeins öðruvísi baksvið í þeim lagatexta. En út frá því sjónarmiði að það er betra að íbúð sé notuð en að hún sé ekki notuð, er skynsamlegt að gera þessa breytingu. Ég er hins vegar ekki sammála því að þeirri breytingu eigi að fylgja sex ára bann við úthlutun til viðkomandi sveitarfélags. Mér finnst óþarft að setja í lagatexta slík bannákvæði því húsnæðismálastjórn er vel treystandi til að úthluta hverju sinni til sveitarfélaga og annarra umsóknaraðila eftir þörfum, þ.e. þeim þörfum sem þeir sýna fram á að eru fyrir viðkomandi íbúðalánaflokk hverju sinni. Ef það er ekki hægt að selja tilteknar íbúðir vegna skorts á fólki þá er augljóslega ekki hægt að sýna fram á neina þörf þannig að það þarf í sjálfu sér enga lagatexta sem banna húsnæðismálastjórn að lána viðkomandi sveitarfélagi. Ég tel þetta því óþarft og reyndar held ég að það geri málið allt of þungt í vöfum að vera með svona langt bann út frá einhverjum aðstæðum sem geta breyst tiltölulega hratt. Og svo ég nefni enn það sveitarfélag sem var minnst á fyrr í umræðunni, þ.e. mína heimabyggð, þá hafa aðstöður breyst mjög mikið á hálfu ári. Atvinnuleysi er nánast ekki neitt. Það er farið að fjölga í plássinu og íbúðir farnar að ganga út á nýjan leik þannig að það er talandi dæmi um mjög hraða breytingu. Þar gæti hugsanlega orðið, þó ég viti ekkert um það, þörf fyrir íbúðir eftir eitt, tvö ár sem væru þá ekki lengur til því allar aðrar væru setnar. Þá þyrfti að fara að bæta við og þá stæðum við frammi fyrir sex ára banni. Mér finnst það ekki mjög skynsamlegt.

[19:45]

Varðandi 2. gr. frv. er ég sammála þeirri hugsun sem þarna er á bak við en ég vil þó gera þá athugsemd við efni greinarinnar að mér finnst eðlilegt að fresta allri greiðslunni. Ekki bara afborguninni heldur líka vöxtunum eins og hér er lagt til, þ.e. að einskorða heimildina til að fresta afborgun af lánum við tilteknar aðstæður. Mér finnst að heimildin eigi að ná til allrar greiðslunnar því sérstaklega á nýlegum íbúðum er nánast öll greiðslan vextir. Afborgunarþáttur greiðslunnar er tiltölulega lágur sem skýrist af því að hér er um að ræða svonefnt annuitets-lán sem þingmenn hafa eflaust heyrt talað um. Þannig að gagnið af því að fresta bara afborguninni er tiltölulega lítið ef um er að ræða íbúðir sem eru með tiltölulega nýlegt lán.

Þá finnst mér dálítið óljóst ákvæðið um það hve langan frest heimilt er að veita og hvaða aðili það er sem tekur þá ákvörðun. Lagatextinn er skýr, það er húsnæðismálastjórn sem samþykkir að veita frestunina, en hann er óskýr varðandi það hver eigi að ákvarða tímann sem frestunin nær yfir. Í þessari lagagrein segir bara, með leyfi forseta: ,,Frestun á afborgun lána samkvæmt ákvæði þessu getur einungis átt sér stað í ákveðinn tíma eftir ákvörðun húsnæðismálastjórnar á meðan unnið er að varanlegri lausn.`` Ákveður stjórnin bæði að veita frest og tímalengd hans? Eða eru það svo embættismennirnir sem ákveða eftir einstökum atvikum hversu langur sá frestur á að vera? Þetta er ekki alveg skýrt. Það þarf a.m.k. að skýra málið þannig að ekki verði hætta á árekstrum vegna túlkunar ákvæðisins. En það atriði geta menn athugað í nefnd eins og annað orðalag í lagagreinum.

Virðulegi forseti. Ég hef lýst í aðalatriðum afstöðu minni til þessa máls og eins og sjá má af frv. er þetta ekki stórt frv., það tekur á tiltölulega afmörkuðum vandamálum. Ég tel tillögurnar sem í frv. eru til bóta frá því sem nú er en bendi á að rétt væri að ganga kannski lengra í að veita almenna lagaheimildir til þess að færa íbúðir eða laga lánin á viðkomandi íbúðum að greiðslugetu þeirra sem í íbúðunum eru.