Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 13:37:23 (4767)

1996-04-16 13:37:23# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[13:37]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs vegna reglugerðar nr. 176/1996, um birtingu, útgáfu og aðra meðferð upplýsinga úr álagningarskrá, skattskrá og virðisaukaskattskrá. Tilefnið er það að í þessari reglugerð eru næsta einstæð ákvæði þar sem almenningi er bannað að reikna út upplýsingar úr skattskránni. Með öðrum orðum er bannað samkvæmt reglugerðinni að reikna og sérstaklega eftir vísitölu.

Upphaf þessa máls er það að eins og oftar þegar um núv. ríkisstjórn er að ræða að Verslunarráð Íslands klagaði. Það kvartaði vegna þess að ýmsir fjölmiðlar voru að birta upplýsingar úr skattskrám og reiknuðu þá út eða áætluðu hvað viðkomandi einstaklingar eða fyrirtæki hefðu e.t.v. haft í tekjur. Sagt var frá þessari beiðni Verslunarráðsins í hinu víðlesna málgagni okkar Alþýðubandalagsmanna, Vikublaðinu, 11. nóvember 1994, undir fyrirsögninni ,,Efnafólk vill fela tekjurnar með ritskoðun á fjölmiðla.`` Núna á dögunum birtir Vikublaðið niðurstöðu þessa máls: ,,Ritskoðun samkvæmt beiðni Verslunarráðsins.`` Verslunarráðið sneri sér til ýmissa aðila og bað um að settar yrðu reglur til að koma í veg fyrir að of mikið yrði reiknað á grundvelli þeirra upplýsinga sem koma í skattskrám og álagningarskrám.

Verslunarráðið hafði samt snúið sér til tölvunefndar. Tölvunefnd hafði hafnað beiðni Verslunarráðsins. Verslunarráðið hafði snúið sér til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður Alþingis hafði hafnað beiðni Verslunarráðsins að því er þessa hluti varðar og taldi ekki ástæðu til að grípa inn í málið að neinu leyti vegna þessara fyrirtækja og einstaklinga sem báru sig aumlega vegna blaðafrétta um tekjur og tekjubreytingar.

Niðurstaðan varð hins vegar sú í fjmrn. að setja þessa einstöku reglugerð og í henni eru nokkur mjög fróðleg efnisatriði. Í fyrsta lagi það að öll útgáfa upplýsinga úr álagningarskrá er óheimil. Samt á skráin að liggja frammi í hálfan mánuð. Í öðru lagi er upplýsingaútgáfa óheimil hvort heldur sem er í heild eða að hluta eins og stendur í reglugerðinni. Í þriðja lagi segir: ,,Þó er heimilt að birta fjölmiðlum upplýsingar úr álagningarskrá á þeim tímum sem hún liggur frammi.`` Með öðrum orðum mega fjölmiðlar eða almenningur lesa álagningarskrána. Í fjórða lagi stendur síðan: ,,Upplýsingar úr álagningar-, virðisauka- og skattskrá má aðeins birta á þann hátt sem þær koma fyrir í skránum.`` Með öðrum orðum, það má birta upplýsingarnar nákvæmlega eins og þær eru skrifaðar niður í viðkomandi skrá en ekki á neinn hátt öðruvísi. Í fimmta lagi segir: ,,Öll úrvinnsla upplýsinga úr skránum er óheimil``. Þetta er orðrétt úr reglugerðinni. Öll úrvinnsla upplýsinga úr skránum er óheimil. Í sjötta lagi: ,,svo sem umreikningur álagðra gjalda yfir í tekjur ...`` Það er sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að umreikna álögð gjöld yfir í tekjur. Í sjöunda lagi er líka bannað að umreikna skattana yfir í veltufjárhæð fyrirtækjanna. Það er orðrétt bannað í reglugerðinni. Í áttunda lagi er samanburður milli ára sérstaklega bannaður. Orðrétt: ,,samanburður milli ára`` er tiltekinn sem vítavert athæfi. Það kemur að vísu ekki fram í reglugerðinni hversu langa fangavist menn þurfa að fara í fyrir að bera þetta saman milli ára en til að hnykkja á þessu segir að lokum: ,,framreikningur til núvirðis með vísitölureikningi``. Hann er sérstaklega bannaður. Sem sagt, fjmrn. er sérstaklega uppsigað við vísitölureikning.

Af þessu tilefni, hæstv. forseti, og vegna þess að Vikublaðið fletti ofan af þessu máli, ákvað ég að fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann geri grein fyrir málinu. Ég spyr hann ekki af hverju hann setti reglugerðina heldur spyr ég hann: Hefur fjmrh. fellt þessa reglugerð úr gildi? Ef ekki nú þegar, hvenær ætlar hann að fella reglugerðina úr gildi?