Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 13:42:31 (4768)

1996-04-16 13:42:31# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[13:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er kveðið á um tvenns konar skrár. Annars vegar er um að ræða álagningarskrá, hins vegar skattskrá. Skattstjórar leggja fram álagningaskrár þegar lokið er álagningu opinberra gjalda. Sú skrá liggur frammi hjá skattstjórum í tvær vikur og er aðgangur að henni öllum frjáls á þeim tíma sem hún liggur frammi. Í álagningarskrá skal tilgreina þá skatta sem hafa verið lagðir á hvern gjaldanda samkvæmt lögunum. Hafa fjölmiðlar ávallt nýtt sér þennan aðgang og birt úr þeim upplýsingar.

Þegar kærumeðferð er lokið birtir skattstjóri skattskrá og gefur hún réttari mynd af álögðum sköttum.

Skattskrá skal liggja frammi í tvær vikur. Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta sem koma fram í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta. Ekki er heimilt að gefa út álagningarskrá enda gefa upplýsingar úr álagningarskrá ekki til kynna endanlega álagningu opinberra gjalda þar sem kærumeðferð er ólokið þegar skráin er lögð fram.

Álagningar- og skattskrár eru persónulegar upplýsingar um fjárhagsmálefni manna sem falla innan gildissviðs laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. gr. þeirra laga. Þess vegna fjallar tölvunefnd lögum samkvæmt um slík mál. Af því að hv. þm. sagði að þetta væri ættað úr fjmrn. og ég reyndar heyrði á hans máli að hann hefur ekki kynnt sér þetta mál mjög náið vil ég taka það fram að reglugerðin byggist á bréfi tölvunefndar sem fer með þessi málefni, dags. 9. nóv. 1995 til ríkisskattstjóra. Þar er tekið fram að eftirfarandi skilmálar skulu gilda um birtingu upplýsinga úr umræddum skrár. Ég les hér, með leyfi forseta, úr bréfi tölvunefndarinnar. Þar segir:

,,Upplýsingar úr álagningar- og skattskrám má aðeins birta á þann hátt sem þær koma fyrir í skránum. Úrvinnsla upplýsinga, t.d. umreikningur álagðs gjalds yfir í tekjur eða veltufjárhæð, samanburður á milli ára, framreikningur til núvirðis með vísitölureikningi o.s.frv. er óheimill.``

[13:45]

Menn geta auðvitað hlegið að þessu bréfi tölvunefndar en hún hefur lögsögu í málinu. Síðan segir: ,,Óheimilt er að birta kennitölur í álagningarskrám og skattskrám sem ætlaðar eru til opinberrar birtingar hvort heldur á pappír eða á tölvutæku formi.`` Síðan er fjallað sérstaklega um álagningarskrá sem ég tel ekki ástæðu til þess að fara yfir í stuttu máli en er auðvitað sjálfsagt að upplýsa. Það skal tekið fram að víðast erlendis tíðkast ekki að birta álagningarskrár eins og í Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi svo að ég nefni dæmi, heldur einungis skattskrá.

Í áliti umboðsmanns, af því að það var minnst á hann, umboðsmanns Alþingis frá 22. júní 1995 var fjallað um kvörtun fimm skattaðila vegna birtingar á skattupplýsingum í fjölmiðli. Eru þar m.a. raktar á ítarlegan hátt umræður á Alþingi um upplýsingar úr skránum. Þar kemur fram að umboðsmaður sé sammála þeirri afstöðu tölvunefndar að upplýsingar sem fram koma á álagningaskrá og skattskrá falli undir ákvæði laga nr. 121/1989 og staðfestir því í einu og öllu lögsögu tölvunefndar í málinu þannig að það er ljóst hver niðurstaða umboðsmanns Alþingis er.

Reglugerðin sem vitnað hefur verið til um birtingu, útgáfu og aðra meðferð upplýsinga er þess vegna afrakstur samstarfs ríkisskattstjóraembættisins og tölvunefndar og byggir á niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Það er ljóst að hún er í samræmi við sjónarmið tölvunefndar og álit umboðsmanns Alþingis. En ég tel eðlilegt í tilefni af fram kominni gagnrýni að litið sé á þetta mál aftur og það skoðað. Ég hef reyndar fyrir helgina beðið um að starfsmenn ráðuneytisins, skattstjóraembættisins og tölvunefndar líti á þetta mál. Þangað til er engin ástæða til þess að afnema reglugerðina enda hefur hún enga þýðingu fyrr en í fyrsta lagi í sumar, þ.e. í ágúst þegar álagningarskrá verður næst lögð fram.

Þess skal getið að ég finn hvergi dæmi um það að Verslunarráð Íslands hafi staðið að þessu. Það sá ég reyndar í þessu víðlesna Vikublaði þar sem segir: ,,Ritskoðun samkvæmt beiðni Verslunarráðs.`` Ég veit hvergi til þess að það hafi komið að málinu en síðan er gert mikið úr þessum umreikningi. Það sem vakti helst athygli mína þegar ég las þessa forsíðu var mynd af þremur þingmönnum. ,,Nýjar þingkonur`` stendur undir myndinni og á myndinni eru Sigríður Jóhannesdóttir, Ingibjörg Sigmundsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, þannig að mér sýnist að sá umreikningur sem mesta athygli vekur í þessu víðlesna fjöldablaði hafi verið þessi umbreyting sem átti sér stað á þessum hv. þm.