Meðferð upplýsinga úr skattskrám

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 14:03:57 (4775)

1996-04-16 14:03:57# 120. lþ. 119.91 fundur 252#B meðferð upplýsinga úr skattskrám# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[14:03]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður að ég hef óskað eftir skoðun á málinu á grundvelli umræðna sem hafa orðið um þetta mál og þeir sem þurfa að koma að því eru auðvitað þeir sem hafa lögsögu í málinu. Þó að einhverjir þingmenn vilji blása á slíka lögsögu er ráðherrann ekki æðri í lögunum sem betur fer kannski. Þetta liggur fyrir og þingið verður að sjálfsögðu látið fylgjast með því.

Ég vil einnig láta koma fram að líkast til mundi það engu breyta þótt ég afnæmi reglugerðina því að tölvunefndin hefur vald í málinu og reglugerðin verður að byggjast á lögum og það er afstaða tölvunefndarinnar sem blífur í málinu. (SvG: Til hvers var þá reglugerðin sett?) Reglugerðin er sett vegna þess að það er góður siður í lögfræði, sem ég veit að allir þeir sem hafa einhvern tíma komið nálægt lögfræði þekkja, að safna á einn stað heimildum og úrræðum um tiltekin atriði. Það er það sem gekk ráðuneytinu til og ekkert annað enda breytir reglugerðin ekki lögum.

Vandinn er auðvitað sá sem hefur komið fram í umræðunum og ég skal alveg fúslega viðurkenna það að ég sé ekki hvernig á að fara að þessari reglugerð eða að niðurstöðutölu nefndarinnar. Þótt upplýsingarnar séu birtar og síðan sagt að það megi ekki reikna eftir þeim er ekki hægt að banna fólki að reikna og koma með alls konar fyrirvara þá auðvitað mun það verða gert og það er vandamálið. Við ráðum þessu ekki. En menn mega ekki gleyma því af hverju tölvunefndin setur þessar skorður. Það er vegna þess að tölvunefndin telur að ekki megi safna saman upplýsingum, breyta þeim í tekjur, gefa út sérstakar skrár vegna þess að þær mundu verða seldar þeim sem hefðu áhuga á því að senda svokallað ,,junk mail`` til þessara aðila sem þarna eiga í hlut og þeir eigi rétt á því að fá að vera í friði fyrir slíku.

Virðulegi forseti. Ég vildi að þetta kæmi fram. Málið er til skoðunar. Ég hef auðvitað lesið mjög vandlega niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður fjallar ekki nákvæmlega um þetta mál sem við erum að tala hér um heldur fyrst og fremst um tímasetningar og um álagningarskrána en tölvunefndin sendi sérstakt bréf til ríkisskattstjóra út af þessum yfirlýsingum eins og fram hefur komið. Það er því að sjálfsögðu alrangt sem kom fram í hinu víðlesna blaði sem var vitnað til í upphafi en ég vonast til þess að það blað leiðrétti nú fyrri frétt sína.