Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 14:07:44 (4777)

1996-04-16 14:07:44# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[14:07]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvörpum til laga, þ.e. annars vegar frv. um tekjuskatt og eignarskatt, 421. máli þingsins. Það frv. er að finna á þskj. 750. Einnig mæli ég fyrir frv. á þskj. 751, 422. mál.

Með frv. þeim sem hér eru til umræðu er lagt til að tekin verði upp samræmd skattlagning allra fjármagnstekna einstaklinga. Í þessu felst tvennt: Annars vegar verði vaxtatekjur skattlagðar en þær eru nú skattfrjálsar. Hins vegar verði aðrar fjármagnstekjur, þ.a. arður, söluhagnaður og leigutekjur, skattlagðar á sama hátt en í því felst skattalækkun frá því sem nú er. Ég mun skipta framsögu minni í þrennt. Í fyrsta lagi geri ég grein fyrir aðdraganda þessa máls en hann er orðinn nokkuð langur. Í öðru lagi rek ég megintillögur frv. og í þriðja lagi mun ég fjalla sérstaklega um áhrif tillagnanna. Ég mun einnig í þessu samhengi fara nokkrum orðum um sérstakt frv. formanna þriggja af fjórum stjórnarandstöðuflokkunum.

Aðdragandi skattlagningar fjármagnstekna er orðinn nokkuð langur. Í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var á árunum 1988--1990 unnið að tillögugerð um skattlagningu vaxtatekna en sú stjórn náði þó engri niðurstöðu í málinu. Vorið 1992 skilaði nefnd, sem ég skipaði, tillögu um að tekin yrði upp skattlagning raunvaxta. Þessi hugmynd þótti mörgum flókin í framkvæmd og málið kom aldrei til kasta Alþingis. Hins vegar var gefin út fróðleg skýrsla sem hefur orðið uppspretta margs konar upplýsinga um málið frá þeim tíma og síðar.

Þær tillögur sem liggja fyrir í þessu frv. má í reynd rekja til yfirlýsingar fyrri ríkisstjórnar í maí 1993 í tengslum við gerð kjarasamninga en af hálfu ASÍ og VSÍ var talið heppilegast að skattlagningin yrði í formi lágs skatthlutfalls á nafnvexti í staðgreiðslu. Í kjölfarið var skipuð nefnd til að útfæra þessar hugmyndir og lágu tillögur hennar fyrir haustið 1993. Ekki varð þó af afgreiðslu málsins, m.a. vegna aðgerða til að lækka vexti í landinu og var talið heppilegra að bíða með þessar hugmyndir um sinn.

Þá lá einnig fyrir skýrsla sem fór aldrei í frumvarpsform og var reyndar rædd lauslega í þáv. ríkisstjórn en aldrei lögð fyrir þingflokka eða Alþingi. Í desember 1994 gaf fyrrv. ríkisstjórn út yfirlýsingu sem m.a. átti að greiða fyrir gerð kjarasamninga sem þá stóðu fyrir dyrum. Þar var m.a. kveðið á um skipan nefndar til þess að gera tillögur um skattlagningu fjármagnstekna með þátttöku allra þingflokka og fulltrúa Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Þessi nefnd var síðan skipuð sl. vor og var henni falið að gera tillögur um hvernig heppilegast væri að standa að skattlagningu fjármagnstekna. Nefndin skilaði fyrir skömmu áliti sínu og tillögum og eru þær kynntar í frv. nær óbreyttar og ég vísa þá til fskj. með því frv. sem hérna liggur fyrir.

Eins og fram kemur í skilabréfi nefndarinnar hefur hún unnið út frá því grundvallarviðhorfi að ná víðtækri samstöðu um málið. Nefndarmenn komu að þessari umræðu með ólík sjónarmið jafnt um það hvort taka beri skattinn upp, hvaða leiðir skuli fara og hvort hann eigi að vera mikilvæg tekjulind fyrir ríkissjóð. Sú tillaga sem hér liggur fyrir og nefndin varð sammála um er málamiðlun og verður að skoða hana í því ljósi. Þessi sjónarmið og afstaða nefndarmanna voru höfð að leiðarljósi þegar tillögurnar voru kynntar í ríkisstjórn og í þingflokkum stjórnarinnar og lögð áhersla á að tillögur nefndarinnar yrðu lagðar óbreyttar fram á Alþingi þar sem ætla mætti að um þær gæti tekist víðtæk samstaða. Ég held, virðulegi forseti, að það þurfi að undirstrika þetta atriði alveg sérstaklega að fulltrúar þingflokkanna og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins komu að þessu starfi, ekki bundnir af þingflokkum sínum þó að ég viti til þess að sumir þeirra og sem betur fer flestir hafi gert þingflokkunum grein fyrir stöðu málsins, það var litið á niðurstöðuna sem málamiðlun. Í ljósi þess barðist ég til að mynda gegn því að menn væru að gera breytingar á slíku frv. og kaus heldur að það væri notað sem stjfrv. þó ég vissi að í nefndinni hafi komið fram sjónarmið sem gætu hafa leitt til þess að fluttar yrðu breytingartillögur á þinginu. Þetta vildi ég að kæmi fram því að það skýrir hvers vegna þau efnisatriði eru í frv. Það er auðvitað augljóst því að áhugi manna er mismikill á efninu auk þess sem menn vildu fara mismunandi leiðir en vegna þess að þetta var málamiðlun allra stjórnmálaflokkanna sem eiga sæti á Alþingi, þ.e. fulltrúa þingflokkanna, var frv. lagt fram með þessum hætti. Mér er þó fyllilega ljóst að sjálfsögðu að hér var ekki verið að binda þingflokkana með neinum slíkum hætti enda þótt menn væru tilnefndir hver af sínum þingflokki þá gátu þeir ekki bundið þingflokkana og tóku það auðvitað sérstaklega fram. Ég er hins vegar einungis að skýra hvernig stendur á því að ríkisstjórnin hreyfði ekki málið og taldi ekki ástæðu til.

Þegar fjallað er um markmið skattlagningarinnar er gjarnan vísað til þriggja atriða, þess að afla tekna, jafna tekjuskiptinguna og hafa áhrif á atferli fólks og/eða fyrirtækja. Þessi atriði hafa öll verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni um skattlagningu fjármagnstekna. Þannig hafa margir talið óréttlátt að vaxtatekjur einstaklinga skuli vera skattfrjálsar og bent á að Ísland skæri sig úr hvað þetta varðar í samanburði við aðrar þjóðir. Erfitt sé að finna rök fyrir því að vaxtatekjur einstaklinga njóti þessa skattalega forgangs umfram atvinnutekjur og einnig umfram aðrar fjármagnstekjur, svo sem arð, húsaleigutekjur og söluhagnað. Þannig hefur verið bent á að í atvinnurekstri séu vaxtatekjur skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur. Þá hefur verið nefnt að í þröngri fjárhagsstöðu ríkissjóðs sé óhjákvæmilegt að líta til skattlagningar á vöxtum. Enn fremur hefur verið vísað til þess að þeir einstaklingar sem hafa hærri tekjur og meiri eignir njóti yfirleitt meiri vaxtatekna og því muni skattalagning vaxta stuðla að tekjujöfnun. Síðast en ekki síst hefur verið bent á það misræmi í skattlagningu fjármagnstekna sem birtist í skattfrelsi vaxta og skattlagningu annarra fjármagnstekna hamli gegn áhættufjárfestingu í atvinnulífinu. Við ríkjandi aðstæður sé einfaldlega arðbærara og áhættuminna að fjárfesta í skattfrjálsum verðbréfum en öðrum eignum. Við þetta bætist að vaxtaberandi eignir séu að stærstum hluta undanþegnar eignarskatti öfugt við aðrar eignir. Þessi atriði eru talin ráða miklu um að eiginfjárhlutfall íslenskra fyrirtækja er almennt of lágt.

[14:15]

Ýmsir hafa hins vegar vakið athygli á því að hærri eignarskattar hér á landi en almennt tíðkast í nágrannalöndunm vegi á móti skattfrelsi vaxta að því marki sem vaxtaberandi eignir eru eignarskattsskyldar enda hafi háir eignarskattar í sumum tilvikum beinlínis verið réttlættir með því að vextir væru skattfrjálsir. Enn fremur hefur verið bent á að samanburður á vaxta- og atvinnutekjum sé ekki einhlítur þar sem stór hluti greiddra vaxta sé í reynd verðbótaþáttur en ekki tekjur auk þess sem fólk hafi yfirleitt einhver vaxtagjöld á móti vaxtatekjunum.

Þótt þannig hafi komið fram margvísleg sjónarmið í umræðunni er niðurstaðan ótvírætt sú að flest stjórnmálaöfl telja æskilegt að taka upp skattlagningu vaxtatekna. Árum saman hefur verið um það rætt hér á landi að skattleggja vexti og helst að samræma skattlagningu allra fjármagnstekna. Af þessu hefur þó ekki orðið og gildir einu hvaða flokkar hafa setið í ríkisstjórn. Þetta stafar ekki af einhlítri andstöðu einhvers stjórnmálaflokks gegn skattlagningu af þessu tagi. Meira máli skiptir sú óvissa sem hefur ríkt um áhrif skattsins á sparnað, vaxtastig, fjárstreymi til útlanda og stöðuna almennt á íslenskum fjármagnsmarkaði. Jafnframt vex mörgum í augum aukin upplýsingagjöf og ný flækja í framtölum manna. Einnig hafa ýmsir haft áhyggjur af áhrifum skattsins á afkomu einstakra hópa. Þrátt fyrir skattfrelsi vaxta er peningalegur sparnaður einstaklinga hér á landi minni en æskilegt er talið og ýmis rök hníga að því að skattlagning vaxta ein og sér kunni að gera hvort tveggja í senn, draga úr sparnaði og auka neyslu. Sú þróun gæti raskað jafnvægi á fjármagnsmarkaði, hækkað vexti og dregið úr fjárfestingum. Enda þótt flestar þjóðir skattleggi vexti og skatthlutfallið sé víða hátt er hægt að finna lönd þar sem komast má hjá að greiða skatt af vöxtum. Skattlagning vaxta kann því að leiða til þess að fé streymi úr landi. Því hefur verið samstaða um að ganga verði til verksins með gát.

Af framangreindum ástæðum er ljóst að samstaða mun því aðeins nást um skatt á vexti að hann verði einfaldur í framkvæmd og skatthlutfallið sé lágt. Tillögur frv. endurspegla þetta og gera ráð fyrir því að lagður verði 10% skattur á nafnvexti, afföll og gengishagnað án heimildar til frádráttar vaxtagjalda og kostnaðar á móti fjármagnstekjum. Jafnframt verði heimilt að nýta persónuafslátt til frádráttar skattinum. Það kemur einungis hinum tekjulægstu til góða, þ.e. þeim sem hafa tekjur undir skattleysismörkum en lausleg áætlun bendir til þess að nálægt fjórði hver einstaklingur sem hefur einhverjar vaxtatekjur lendi í þessum hópi, þ.e. hópnum sem ekki ber skatt þar sem hann er undir skattleysismörkum. Það er auðvitað vegna þess að í hópnum er fjöldi fullorðins fólks sem á einhverjar innstæður en hefur lokið sínum starfsdegi. Þótt 10% vaxtaskattur yrði tekinn upp væri að öðru óbreyttu enn mikill munur á skattlagningu hlutafjár, leigu- og söluhagnaðar annars vegar og flestra vaxtaberandi eigna hins vegar. Skattkerfið hefði því áfram þau áhrif að beina fjármagni inn á lánamarkað fremur en í áhættufjárfestingu í atvinnulífinu. Mismunun í skattlagningu vaxta og annarra fjármagnstekna hefur unnið gegn æskilegri og nauðsynlegri eiginfjármyndun í íslenskum fyrirtækjum og staðið þeim fyrir þrifum. Það getur skipt sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu að fólk fjárfesti í hlutafé. Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að þeir aðilar sem hafa mikið fé umleikis taki með hlutafjárkaupum þátt í því að auka eigið fé í atvinnurekstri. Af þessum ástæðum er mikilvægt að allar fjármagnstekjur einstaklinga séu skattlagðar með svipuðum hætti.

Eins og ég hef áður nefnt eru tillögurnar í reynd tvíþættar. Annars vegar að tekin verði upp skattlagning vaxtatekna, en þær eru nú skattfrjálsar, hins vegar og jafnframt að allar aðrar fjármagnstekjur verði skattlagðar á svipaðan hátt en í því felst skattalækkun frá því sem nú er. Meginatriði tillagnanna eru þessar:

1. 10% skattur verði lagður á allar fjármagnstekjur einstaklinga, þ.e. vexti, verðbætur, afföll, gengishagnað og tekjur af hlutdeildarskírteinum, tekjur af arði, leigu íbúðarhúsnæðis og söluhagnað. Þar er ekki síst verið að tala um söluhagnað hlutabréfa þar sem kannski reynir mest á þetta en þess gætir að sjálfsögðu annars staðar líka.

2. Skatturinn verði innheimtur í staðgreiðslu af greiðanda fjármagnstekna þar sem því verður við komið en endanlegt uppgjör verði á framtali.

3. Einstaklingum verði heimilt að nýta persónuafslátt sinn til greiðslu fjármagnstekjuskatts en ekki er gert ráð fyrir sérstöku frítekjumarki vegna fjármagnstekna.

4. Skatturinn reiknast af öllum vaxta- og fjármagnstekjum án frádráttar vaxtagjalda eða annars kostnaðar.

5. Skattlagning fjármagnstekna verði almenn og án undantekinga. Fjármagnstekjur lífeyrissjóða verði þó ekki skattlagðar.

6. Í kjölfar skattlagningar vaxtatekna verði tekjutenging ýmissa bótagreiðslna hins opinbera skoðuð sérstaklega.

Virðulegi forseti. Hér verður ekki sérstaklega fjallað um það hvað gera skuli við tekjur þegar þær koma af þessum skatti en ýmsum þykir álitlegt að þær yrðu notaðar til skattalækkunar og þá fyrst og fremst með það í huga annars vegar að lækka eignarskatt um leið og eignarskattsstofninn yrði breikkaður. Hins vegar hafa verið uppi hugmyndir um að nýta þurfi fjármagn til að koma til móts við eðlilegar óskir fjölmargra til að hægt sé að lækka svokölluð jaðaráhrif í tekjuskattskerfinu.

Að undanförnu hafa orðið nokkrar umræður um skattlagningu fjármagnstekna samkvæmt tillögum nefndarinnar. Þar hefur á köflum gætt nokkurs misskilnings og ónákvæmni sem nauðsynlegt er að leiðrétta. Þetta á ekki síst við um ýmislegt sem fram kemur í frv. sem þrír hv. þm. og flokksformenn flokka sem sæti eiga á Alþingi hafa lagt fram. Ég tek fram að nauðsynlegt er að geta þess að þessir flokkar eru Alþfl., Alþb. og Þjóðvaki. Kvennalistinn tekur ekki þátt í flutningi þessa frv. en allir þessir flokkar áttu aðild að nefndinni. Ég vek athygli á því að í skýrslu nefndarinnar er fjallað ítarlega um áhrif þessarar skattlagningar. Þar kemur fram sú eindregna skoðun að skattlagning vaxtatekna feli í sér aukið samræmi í skattlagningu tekna. Auk þess stuðli hún að tekjujöfnun þar sem tekjuhærri og efnameiri einstaklingar hafa alla jafna meiri vaxtatekjur en hinir tekjulægri. Ég tek fram að þetta eru sjónarmið allra nefndarmanna, ekki bara sumra. Skattlagning vaxtatekna hefur vitaskuld þau áhrif að skattbyrði einstaklinga sem hafa einhverjar vaxtatekjur þyngist frá því sem nú er að því marki sem persónuafsláttur nýtist ekki til greiðslu vaxtaskatts. Skattbyrði þeirra sem nú hafa tekjur af arði, húsaleigu og söluhagnaði en ekki vaxtatekjur minnkar hins vegar þegar á heildina er litið. Tekjuháir einstaklingar munu þannig greiða mun hærri skatt en hinir tekjulægri og af því leiðir að skattlagning fjármagnstekna er tekjujafnandi þegar á allt er litið. Þessu til viðbótar má nefna að gert er ráð fyrir að heimilt verði að nýta persónuafslátt til greiðslu fjármagnstekjuskatts. Við það má ætla að verulegur hluti einstaklinga með lágar tekjur og litlar fjármagnstekjur greiði engan fjármagnstekjuskatt þegar upp er staðið. Lausleg áætlun bendir til þess að fjórðungur þeirra einstaklinga sem hafa einhverjar vaxtatekjur lendi í þessum hópi eins og ég hef áður gert grein fyrir.

Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar, og ég vek athygli á því að nefndin er sammála um þessa skoðun, er einfaldlega rangt að halda því fram að skattlagning fjármagnstekna lendi fyrst og fremst á þeim sem hafa minnstar fjármagnstekjur. Þessi skattlagning er tekjujafnandi þegar upp er staðið. Á þetta legg ég áherslu, þetta kemur fram í áliti nefndarinnar og um það er ekki ágreiningur í nefndinni.

Þá er einnig mikilvægt að halda því til haga að það gilda sömu frítekjumörk um fjármagnstekjur samkvæmt tillögum nefndarinnar og um aðrar tekjur og eins og ég nefndi áður munu fjölmargir einstaklingar geta nýtt sér persónuafslátt upp í greiðslu fjármagnstekjuskatts eða nálægt því fjórði hver einstaklingur.

Í þriðja lagi vil ég nefna að með þessari skattlagningu er ekki verið að búa til nýtt skattkerfi eins og sumir hafa haldið fram. Þvert á móti er skattlagning fjármagnstekna felld inn í lög um tekjuskatt og eignarskatt eins og sést á því frv. sem hér liggur fyrir og er til umræðu. Bæði frv. eru til breytinga á núgildandi lögum.

Í fjórða lagi vil ég vísa á bug þeim fullyrðingum að þessi útfærsla á skattlagningu fjármagnstekna stuðli að meiri skattsvikum. Nefndin komst að þveröfugri niðurstöðu, nefnilega að hætta á skattsvikum sé minni með þessari aðferð. Það er auðvitað gamalkunnugt og hefur tvívegis komið fram í skýrslum sérfræðinga um skattsvikamál að það sem gildir er að hafa sem fæstar undanþágur, draga úr frádráttarliðum og afsláttum ýmiss konar en halda hlutföllunum niðri þvert á það sem gert er í tillögu þremenninganna.

Í fimmta lagi vil ég vekja athygli á því að nefndin komst að þeirri niðurstöðu að eðlilegt og æskilegt sé að skattleggja allar fjármagnstekjur einstaklinga með sama hætti. Það sé óheppilegt að skattleggja sumar fjármagnstekjur með einum hætti og aðrar með öðrum hætti. Sú aðferð leiðir til mismununar og hefur óheppileg áhrif á viðskipti á fjármagnsmarkaði og sparifjármyndun í landinu. Auk þess telur nefndin afar æskilegt fyrir uppbyggingu atvinnulífs og atvinnusköpun í landinu að skattleggja arð og söluhagnað með sama hætti og vexti. Þetta er margítrekað í áliti nefndarinnar. Ekki bara einstaklinga í nefndinni heldur nefndarinnar allrar. Allra, líka fulltrúa Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka.

Ég er sammála þessu álit nefndarinnar og tel þess vegna rangt að halda því fram að skattlagning arðs og söluhagnaðar annars vegar og vaxtatekna hins vegar séu tvö óskyld mál. Þetta eru þvert á móti allt greinar á sama meiði og því fullkomlega eðlilegt að fella skattalega meðferð þeirra undir sama hatt.

Í sjötta lagi vil ég benda á að þær tillögur sem hér liggja fyrir og gera ráð fyrir tiltölulega lágu skatthlutfalli án sérstakra ívilnana umfram nýtingu persónuafsláttar eru ekki hugsaðar sem fyrsta skref í átt til aukningar skattlagningar síðar meir. Það er mesti misskilningur. Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar telur hún valið standa á milli þess að hafa skatthlutfall án sérstakra ívilnana annars vegar og hins vegar þess að hafa hærra skatthlutfall með ýmsum afsláttar- og frádráttarliðum. Nefndin valdi fyrri kostinn, ekki þann síðari. Og þetta val gengur eins og rauður þráður í gegnum nefndarálitið og um þetta er nefndin fullkomlega sammála, líka fulltrúi Alþfl. og fulltrúi Alþb. og fulltrúi Þjóðvaka.

Ástæðan fyrir því að nefndin mælir með þessari leið er ekki síst sú að hún er mun einfaldari í framkvæmd auk þess að vera skilvirkari og heppilegri frá sjónarmiði skatteftirlits og innheimtu. Önnur og ekki síður mikilvæg ástæða er að nefndin telur þessa leið líklegri til að valda minni röskun á fjármagnsmarkaði. Þetta atriði er afar mikilvægt og vil ég undirstrika það. Enda segir sig sjálft að hærra skatthlutfall hlýtur að hafa meiri áhrif á vexti og sparnað og stuðla frekar að fjárflótta en sú leið sem kynnt er í þessu frv. Reyndar var þetta margrætt í nefndinni.

Í þessu sambandi er líka rétt að benda á að í málflutningi sumra sem um þetta hafa fjallað hefur því verið haldið fram annars vegar að þessi skattlagningaraðferð dragi úr sparnaði og hvetji til fjárflótta og hins vegar að eðlilegra sé að hafa skatthlutfallið hærra. Það er auðvitað augljós þversögn í þessum málflutningi enda kemst nefndin að gagnstæðri niðurstöðu eins og ég hef margsinnis minnt á.

Um öll þessi atriði er fjallað afar skýrt og skilmerkilega í áliti nefndarinnar og ég vil hvetja hv. þm. til að kynna sér þá lesningu vel enda er það ágætur texti sem auðvelt er að skilja.

[14:30]

Ég vil þá víkja sérstaklega nokkrum orðum að þeim sjónarmiðum sem fram koma í frv. þriggja hv. þm., þ.e. formanna Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka. Með tilvísun til þess sem segir í áliti nefndarinnar og allir nefndarmenn voru sammála um, að þetta væri málamiðlun margvíslegra sjónarmiða verð ég að lýsa vonbrigðum mínum með það frv. Ég tel þetta vera dæmi um undarleg og óskiljanleg vinnubrögð enda í algjörri andstöðu við afstöðu þeirra eigin fulltrúa í nefndinni. Ég vil í þessu sambandi geta þess að ég hef átt viðræður við fulltrúa Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og þeir hafa ítrekað fyrri afstöðu og lýst yfir fullum stuðningi við álit nefndarinnar og þær tillögur sem ég hef mælt fyrir.

Þá vek ég athygli á því sem að ég veit auðvitað að Kvennalistinn er fullfær um að gera sjálfur, að fulltrúi Kvennalistans í nefndinni hefur lýst sömu sjónarmiðum í dagblaðsgrein nýlega enda stendur Kvennalistinn ekki að frv. þremenninganna. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um einstök efnisatriði frv. þremenninganna. Mér skilst að Þjóðvaki, Alþb. og Alþfl. hafi beðið um sérstaka útvarpsumræðu um málið annað kvöld og þá gefst auðvitað betra tækifæri til þess. Þó kemst ég ekki hjá því að vekja athygli á því að í frv. og greinargerð þess koma fram sjónarmið sem nefndin hafði áður fjallað mjög ítarlega um. Ekki einungis formaður nefndarinnar, fulltrúar stjórnarflokkanna og aðilar vinnumarkaðarins heldur líka fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, þar á meðal fulltrúar Alþfl., Alþb. og Þjóðvaka. Og hver var niðurstaðan? Niðurstaðan var mjög afdráttarlaus og eindregin, nefnilega sú að allir nefndarmenn höfnuðu þessum sjónarmiðum og völdu þá útfærslu sem fram kemur í nefndarálitinu og því frv. sem ég mæli hér fyrir. Annaðhvort hljóta þess vegna formennirnir þrír og höfundar frv. að vera ósammála sjónarmiðum sinna eigin fulltrúa í nefndinni eða þessum fulltrúum hefur snúist hugur. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um það enda kemur það væntanlega fram í frekari umræðum á eftir.

Erfitt er að meta nákvæmlega áhrif tillagnanna á tekjur ríkissjóðs. Talið er að skattlagning vaxtatekna einstaklinga ein og sér geti skilað um 800 millj. kr. í ríkissjóð þegar áhrifin eru að fullu komin fram. Í þessum tölum hefur verið tekið tillit til lækkunar tekna ríkissjóðs vegna nýtingar persónuafsláttar á móti greiðslu vaxtaskattsins en þau áhrif má meta nálægt 100 millj. kr. Af aðilum sem nú eru skattfrjálsir en mundu greiða skatt samkvæmt tillögunum, þ.e. ýmis félagasamtök og opinberir aðilar, féllu til um 300 millj. til viðbótar. Loks er skattlagning annarra fjármagnstekna talin geta skilað um 250 millj. kr. tekjum miðað við skattstofninn eins og hann er áætlaður í dag samanborið við 450 millj. skatttekjur samkvæmt gildandi lögum, eða 200 millj. kr. minna en í dag að öðru óbreyttu. Á móti þessu tekjutapi vegur hins vegar að þessi breyting örvar væntanlega hlutabréfakaup og stuðlar auk þess að bættum skattskilum húsaleigutekna. Sá skattstofn mun því án efa stækka frá því sem nú er. Þess vegna er óvíst hve miklum skatttekjum ríkissjóður mun tapa af öðrum fjármagnstekjum þegar upp er staðið. Samanlagt má því gera ráð fyrir því að skattlagning fjármagnstekna geti skilað ríkissjóði nálægt einum milljarði kr. í tekjur þegar fram líða stundir. Tekjuáhrifin eru hins vegar minni framan af eða á bilinu 600--700 millj. kr. þar sem hluti vaxtateknanna kemur ekki til úborgunar fyrr en að nokkrum árum liðnum. Heildaráhrifin á afkomu ríkissjóðs ráðast síðan endanlega af því hvort og þá í hvaða mæli aðrir skattar lækka á móti, svo og því hvort og þá hvernig skattstofninn breytist við álagningu skattsins. Einnig þarf að kanna sérstaklega hvort ástæða sé til að létta undir með einhverjum þeim sem skatturinn fellur á og þarf að ræða það að sjálfsögðu sérstaklega, eins og t.d. þátt sveitarfélaganna í þessu máli.

Um áhrifin á sparnað, vaxtastig og fjárstreymi úr landi gilda um margt svipuð sjónarmið. Álagning vaxtaskatts mun ein og sér væntanlega fremur stuðla að hærri vöxtum en lægri. Jafnframt má ætla að skattlagning vaxta kunni að leiða til þess að fjármagn leiti fremur úr landi en inn. Á móti vegur að skatthlutfallið er lágt og framkvæmdin er einföld. Hvort tveggja dregur úr áhrifunum á vaxtastig og fjárstreymi úr landi. Enn fremur mun lækkun skatta á aðrar fjármagnstekjur hafa gagstæð áhrif, þ.e. auka fjárfestingu í hlutabréfum og þannig minnka lánsfjárþörf fyrirtækja sem aftur stuðlar að lægir vöxtum en ella. Að öllu samanlögðu er því ekki líklegt að tillögurnar, verði þær samþykktar, valdi teljandi röskun á fjármagnsmarkaði heldur munu þær þegar fram í sækir hafa jákvæð áhrif á vexti, sparnað og uppbyggingu atvinnulífs.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið aðdraganda frv. og helstu tillögur er lúta að samræmdri skattlagningu fjármagnstekna. Í lokin vil ég aðeins undirstrika það sem ég hef þegar sagt að hér er á ferðinni málamiðlun þar sem valinn er sá kostur sem talinn hefur verið líklegastur til að víðtækt samkomulag næðist um. Sú útfærsla sem hér er kynnt er sameiginleg niðurstaða eftir ítarlegar umræður fulltrúa allra þingflokka, Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins eftir að hópurinn fjallaði um ýmsar leiðir og hafnaði þeim, m.a. þeirri leið sem formenn þriggja stjórnarandstöðuflokka gera að sinni tillögu eins og ég hef áður lýst. Ég tel engan vafa leika á því að sú leið sem kynnt er í þessu frv. er besta, kannski ætti maður að segja skásta leiðin, til þess að tryggja allt í senn; tekjujöfnun, sem minnsta röskun á fjármagnsmarkaði, einfaldasta framkvæmd og sem best skattskil. Ég minni á að allra síðustu að þetta frv., sem er stjfrv. og ég mæli að sjálfsögðu með að verði samþykkt, er málamiðlun og rann í gegnum stjórnarflokkana sem slíkt þó að sumir aðstandendur hefðu síðan kosið að hlaupa undan merkjum.

Ég legg, virðulegi forseti, til að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.