Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 14:38:01 (4778)

1996-04-16 14:38:01# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[14:38]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var eftirtektarvert í framsöguræðu hæstv. ráðherra hversu sannfæringarkraftur hans var lítill. En þó að hér væri um að ræða stjfrv. eins og hann réttilega gat um, þá gat hann aldrei nægilega vel undirstrikað það að hér væri um að ræða málamiðlun sem stjórnarandstaðan þar á meðal þyrfti að koma að og hefði komið að. Það er rétt að leiðrétta hæstv. ráðherra í nokkrum atriðum og byrja á því að vekja athygli hans á því að nefndarálitinu, á öftustu tveimur blaðsíðunum, fylgir bókun fulltrúa fjögurra stjórnarandstöðuflokka við það frv. sem hann er hér að mæla fyrir. Þar segir að lyktum, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess sem að ofan greinir skrifa undirrituð undir nefndarálitið og telja það ásættanlegt með vísan til bókunar þessarar, en áskilja sér allan rétt í málinu þegar það kemur til kasta Alþingis og almennrar þjóðfélagsumræðu --- sem og þeir stjórnmálaflokkar Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag, Þjóðvaki og Kvennalisti sem þau eru fulltrúar fyrir í nefnd um fjármagnstekjuskatt, þar með að styðja breytingartillögur sem til bóta geta talist, en sættast á og styðja niðurstöður nefndarálitsins að þeim frágengnum.``

Með öðrum orðum, hér er um það að ræða að þau viðhorf sem ég og fleiri í þessari nefnd reifuðu og héldu mjög á lofti í nefndarstarfinu sjálfu munu eðlilega ganga aftur í umræðum á hinu háa Alþingi. Og ég mun kappkosta fyrir mína parta og margir eru mér sammála um það, að ná fram þeim nauðsynlegu breytingum á þessu frv., sem ég mun raunar gera nánari grein fyrir á eftir í almennum umræðum, sem til bóta horfa. Það er líka rétt á þessum vettvangi, strax og í upphafi umræðunar, að minna á að málamiðlunin var nú ekki meiri en svo að í fjárlagafrv. hæstv. ráðherra á fyrstu dögum októbermánaðar, lýsti hann fyrir hönd ríkisstjórnarinnar því yfir hver yrði niðurstaða þessarar nefndar. Þá átti nefndin eftir að vinna í heila fjóra mánuði. Og sjálfur skrifstofustjóri hæstv. ráðherra kom þar m.a. örfáum vikum síðar með tillögur sem gengu í allt aðra átt. Fulltrúi þingflokks Sjálfstfl. í nefndinni kom með hugmyndir í aðra veru. Nefndarstarfinu var því alls ekki lokið þannig að hér er auðvitað fyrst og síðast um að ræða þá stefnumörkun sem ríkisstjórnin er ábyrg fyrir og hæstv. ráðherra getur ekki skotið sér undan því.