Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 15:38:01 (4792)

1996-04-16 15:38:01# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[15:38]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að ég sé í hjarta mínu andvígur þessum skatti. Svo er ekki. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir að henni sé ætlað að gera tillögur um fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts og það getur t.d. verið 0% skattur. Það er ekkert sem bannar það. Það er fyrirkomulag á fjármagnstekjuskatti. Það getur falist í því að það verði ekki skattlagning á fjármagnstekjur nákvæmlega eins og er með sjómannaafslátt og annað slíkt.

Það sem náðist fram fyrir minn tilverknað var að skatturinn var lagður á allar fjármagnstekjur enda er í skipunarbréfi nefndarinnar verið að fjalla um allar fjármagnstekjur, ekki bara vexti. Eftir að það náðist fram varð ég sáttur við þessar tillögur. Ég held að þær séu mjög mikilvægar og ég kem að því í máli mínu á eftir. Þær eru mjög mikilvægar til þess að beina sparifé landsmanna til atvinnulífsins, sem við lifum öll á, en ekki bara til ríkisins.