Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 16:37:49 (4801)

1996-04-16 16:37:49# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[16:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að tala við annan þingmann í andsvari en þann sem flutti hér ræðuna, hitt verður að bíða til betri tíma. En í ræðu hv. þm. komu fram sjónarmið um skattlagningu á t.d. innstæðum félagasamtaka. Staðreyndin er sú að þetta var kannað í nefndinni. Menn komust að því að það væri svo auðvelt að færa á nöfn félagasamtaka að það væri best að hafa þetta allt undir einum hatti, undir einum skatti, ef hann væri bara nægilega lágur. Það er ekki reiknað með að slík samtök séu með miklar upphæðir í einu í langan tíma inni á reikningi hjá sér þótt það geti komið toppur.

Varðandi sveitarfélögin tek fram að það er misskilningur sem hefur sést að skattskyldar tekjur af framtöldum söluhagnaði af húsaleigu sé 2,6 milljarðar kr., þetta voru 1,2 milljarðar á síðasta ári. Tekjur sveitarfélaganna eru að áliti fjmrn. rúmlega 100 millj., sveitarfélögin vilja sjálf segja að þetta séu 133 millj. en ekki 230 millj. eins og kemur fram í frv. formannanna þriggja. Þar að auki má gera ráð fyrir að sveitarfélögin þurfi að bera skatt eins og ríkið reyndar líka ef skatturinn er lagður á og það gæti verið kannski 70 millj. kr. eða eitthvað þar um bil. Það er líka mjög erfitt að koma í veg fyrir að sá skattur sé álagður. Mér finnst hins vegar mjög vel koma til greina að í staðinn sé litið til einhverra annarra þátta er varða samstarf ríkis og sveitarfélaga þannig að ríkið sé bara ekki að taka þetta án þess að nokkuð komi í staðinn. Það finnst mér að þurfi að skoða sérstaklega.

Um eignarskattinn vil ég einungis segja að ekki liggja fyrir neinar tillögur en skoðun mín er sú að þegar fjármagnstekjuskattur sé lagður á þá þurfi í framtíðinni að lækka eignarskattinn og breikka stofninn. Það sé eðlileg afleiðing af því starfi sem hér hefur átt sér stað.