Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:02:58 (4804)

1996-04-16 17:02:58# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:02]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég kom inn á það í andsvari áðan og vil nú ekki auka ræðutíma minn með því að koma inn á það að þessi smuga lokast. Það er nefnilega smuga í dag og ég get bent hv. þm. á einar þrjár þvottavélar, ein til að þvo eignarskattinn, sem ég nefndi áðan, önnur til að þvo arð með því að breyta arði í vexti og þriðja til að þvo leigu, með því að breyta leigu í vexti. Þetta er hægt í dag en þetta verður ekki hægt eftir að frv. er orðið að lögum vegna þess að þetta er allt skattlagt eins. Auk þess geta menn ekki breytt tekjum í vexti eins og hægt er í dag vegna þess, eins og ég gat um áðan, að fyrst borga fyrirtækið 33% skatt af hagnaði og svo þarf að borga 10% skatt af arðinum, sem er greiddur út, þannig að þessi smuga lokast. Auðvitað eiga menn að vinna að því að hafa skattkerfin einföld og rökrétt og það er akkúrat það sem ég taldi mig hafa náð fram í nefndinni og taldi vera ávinning minn að nú á að skattleggja allar fjármagnstekjur eins. Ég ætla að vona að hv. þm. geti tekið undir að það sé æskilegt að hafa kerfin einföld og þannig að þau taki á öllum þáttum eins og það, sem er sérstaklega mikilvægt, að vera ekki að beina fjármagni eitt eða annað, vera ekki að breyta hegðun manna með skattlagningu.