Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:04:29 (4805)

1996-04-16 17:04:29# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:04]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt sem hv. þm. heldur fram að hér sé verið að einfalda skattkerfið. Það er verið flækja það. Það er verið að búa til tvö skattkerfi. Annars vegar fyrir launþega og lífeyrisþega, hins vegar fyrir fjármagnseigendur. Skattar laun- og lífeyrisþega eru í hárri álagningarprósentu, hinir skattarnir eru í lágri prósentu og það er rangt að það sé verið að setja allar fjármagnstekjur í einn flokk. Ég get nefnt skattstofn upp á 22 milljarða kr., þ.e. reiknað endurgjald sjálfstæðra atvinnurekenda og hlut manna í sameignarfélögum sem er undanskilinn og þeir munu bregðast við með því að færa til tekjur sínar í lágskattasmuguna. Þetta mun valda ríkissjóði þvílíku tekjutapi að það er vonlaust mál fyrir hv. þm. að gera sér vonir um að tekjurnar af þessum skatti verði til þess að lækka eignarskatt á Íslandi vegna þess að það verða engar tekjur, það verður tap.