Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:05:38 (4806)

1996-04-16 17:05:38# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:05]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki trú á því að þessi spá rætist vegna þess að þeir möguleikar, sem eru nefndir, eru ekki til staðar. Það að við séum að búa til tvö skattkerfi, er hárrétt. Það á að skattleggja fjármagnstekjur með einum hætti, 10% skatti og það á að skattleggja tekjur launþega með öðrum hætti, með 42--47% umfram frítekjumark. Ég vil benda hv. þm. á að ekki nema þriðjungur framteljenda greiðir tekjuskatt þannig að það er ekki þannig að menn borgi háa skatta af tekjum og síst af öllu lífeyrisþegar sem eru flestir undir tekjuskattsmörkum og borga engan tekjuskatt. Það er því ekki verið að flækja eins og ég gat um áðan. Það voru fimm tegundir skattkerfa fyrir fjármagnstekjur og tvær fyrir tekjuskatt og nú á að fækka þeim niður í eina tegund fyrir fjármagnstekjur.