Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:06:47 (4807)

1996-04-16 17:06:47# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:06]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að koma að kurteislegri ábendingu til hv. þm. Péturs H. Blöndals, 16. þm. Reykjav., um atriði sem kom fram í ræðu hans þegar hann sagði að eingöngu lífeyrissjóðirnir væru undanþegnir þessum skatti. Mér finnst að orðið ,,eingöngu`` sé kannski nokkuð hæpið í þessu sambandi þar sem lífeyrissjóðirnir eru sennilega stærsti sparifjáreigandinn í landinu. Með þeim hugmyndum sem settar eru fram er verið að búa til tvenns konar hugsanlega fjárfesta, tvenns konar hugsanlega aðila sem hafa áhuga á vaxtagreiðslum. Annars vegar verða aðilar sem njóta skattfrelsis. Þeir eru fyrirferðarmestir á sparifjármarkaðnum. Þeir munu geta orðið ráðandi um vaxtakröfur og kröfur til hagnaðar af hlutabréfum. Við hliðina á þessum verða aðilar sem borga 10% af hagnaði sínum af þessum fjárfestingum. Það er því ljóst að ráðandi aðilinn mun halda niðri vaxtastigi og arðsemiskröfum til hlutabréfa. Þetta getur ekki skilist á annan hátt en þann að það auki verulega hættuna á útstreymi fjár frá landinu. Ég er því þeirrar skoðunar að menn hafi í þessu máli nokkuð vanmetið hættuna á þessu útstreymi. Menn settu 10% skattinn í lægri mörk þess sem talið var vera hættumörk en ég held að m.a. sú staðreynd að þarna er verið að búa til tvo hópa fjárfesta þar sem annar greiðir skatt en hinn ekki, geti þar með haft áhrif í þá átt að þarna verði enn meiri hætta á útstreymi fjár en menn hafa metið það í þessu frv.