Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:40:22 (4815)

1996-04-16 17:40:22# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:40]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að það hafi skort mjög á við undirbúning þessa máls að menn hafi leitað eftir að fá umsögn starfandi sérfræðinga í skattkerfinu um skattaleg áhrif þessara tillagna og hvernig hægt verður að tryggja eftirlit með skattframkvæmdinni og tryggja tekjur. Ég sagði, hv. þm., að ég hefði tekið það dæmi sem einna hagstæðast var að mati endurskoðanda fyrir ríkissjóð. Ef við tökum eitt tilvik á sömu forsendum og ég gaf upp áðan og gefum okkur að ekkert af þessum 7 milljörðum falli innan 10% reglunnar, sem þýðir að hlutafélögin hafa ekkert hlutafé, ekki neitt, þá yrðu skatttekjurnar samt 2,8 milljarðar, þ.e. skatthagræðið væri þá ekki nema 300 millj. kr. Ég er með tugi dæma frá mönnum sem eru starfandi í skattkerfinu eða frá sjálfstæðum atvinnurekendum. Þeir munu að vísu njóta nafnleyndar en þeir segja þetta: Þetta er hraksmánarlega illa unnið. Það verður gríðarlega erfitt að framfylgja þessu í framkvæmd eða hafa nokkurt eftirlit með þessu. En ég endurtek: Meginskattalagaáhrifin verða þau að það verða umtalsverðir tilflutningar og þeir gætu ekki orðið, hv. þm., ef það væri rétt sem hér hefur verið haldið fram að það væri búið að samræma með þessum tillögum skattlagningu á allar fjármagnstekjur. Það er bara ekki svo og þeir sem vinna í kerfinu vita að það er ekki svo.