Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:42:29 (4816)

1996-04-16 17:42:29# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:42]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var auðheyrt að hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni var heitt í hamsi og það er kannski ekki nema von ef hann trúir því að það sé rétt sem hann heldur fram að hér sé verið að færa fjármagn stórkostlega til í samfélaginu. Ég vil ítreka það sem ég sagði í ræðu minni áðan að þennan þátt þarf að kanna alveg sérstaklega, þennan þátt sem snýr að arðgreiðslum fyrirtækja. Og að því leytinu vil ég taka undir þau sjónarmið hans. En hins vegar get ég ekki annað en gert athugasemd við þann þátt málflutnings hv. þm. þegar hann er að tala um jaðarskatta og það sé fyrst og fremst verið að skattleggja þá sem næst standa. Ég veit ekki betur en hv. þm. eigi manna mest þátt í því að auka jaðarskatta hér á landinu með þátttöku í sinni síðustu ríkisstjórn. Það er því ekki mjög sannfærandi þegar hann er að básúna það. En batnandi manni er best að lifa.

Við hljótum líka að hugsa til þess hverjir það eru sem hafa vaxtatekjur. Ég vil minna aftur á að það kemur fram í greinargerðinni að að meðaltali fá einstaklingar 75 þús. kr. á ári í vaxtatekjur og hjón helmingi hærri fjárhæð. Þetta gerir 7.500 kr. skatt með 10% skatti, 15 þús. fyrir hjón. Og það kemur jafnframt fram að það eru þeir tekjuhærri sem hafa mestar vaxtatekjur. Öryrkjar og gamalt fólk sem er undir skattleysismörkum er varið í þessum tillögum og að því leytinu er hægt að taka undir þennan 10% skatt. En hinn þáttinn sem snýr að arðgreiðslunum þarf auðvitað að kanna sérstaklega. Ef það er rétt sem fram kemur í máli hv. þm. að hér sé verið að opna glufur til þess að fyrirtæki breyti rekstri sínum, þá skulum við bara líka sameinast um að stoppa þetta, hv. þm. Og ég vil bæta því við að hér hafa stjórnarþingmenn verið með athugasemdir við frv. og ég spyr bara: Er fylgi við þetta frv. í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa átt sér stað í dag? Er meiri hluti fyrir þessu frv.?