Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 17:52:18 (4820)

1996-04-16 17:52:18# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[17:52]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á því að því sem næst allir þingmenn stjórnarflokkanna eru nú horfnir úr þessum sal. Sá ráðherra sem ber málið fram er ekki lengur viðstaddur. Hæstv. forseti tilheyrir vissulega stjórnarflokkunum og er mikils virtur þar á bæ. Aðeins einn ráðherra er hér mættur, hæstv. félmrh. og er það vel. Ég sé ekki betur en að af nefndarmönnum stjórnarliðsins í þeirri nefnd sem á að fá málið til meðferðar sé hv. þm. Pétur H. Blöndal einn til að hlusta á þann málflutning sem hér fer fram. Hv. þm. Vilhjálm Egilsson, formann nefndarinnar sem væntanlega á að taka þessi mál til umfjöllunar, hef ég ekki séð hér alllengi. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir er ekki hér. Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir er ekki hér. Hv. þm. Gunnlaugur M. Sigmundsson var hér áðan (GMS: Og er hér.) og er hér enn, þó hann sé ekki í þingsal. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur ekki sést. Ég spyr, virðulegi forseti, án þess að ég ætli mér nú að tefja þetta mál nokkuð: Finnst forseta Alþingis viðunandi að mál af þessum toga séu rædd hér við þær aðstæður að ráðherrann sem ábyrgðina ber er fjarverandi? Og flestallir þeir stjórnarliðar sem um málið eiga að fjalla að tveimur undanteknum, hv. þm. Pétri H. Blöndal og hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni sem hér gengur í salinn, eru fjarstaddir. Hver er tilgangurinn með efnislegum umræðum eins og hér hafa farið fram við slíkar aðstæður?