Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 18:46:42 (4835)

1996-04-16 18:46:42# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:46]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart ef hv. 9. þm. Reykn. telur að ég sé að koma út úr skápnum. Það hefur lengi verið vitað að ég væri mótfallinn vaxtatekjuskatti og hann þarf ekki annað en lesa blöðin til þess sjá greinar eftir mig um það efni.

Hvað varðar það hvernig öðrum þjóðum hefur vegnað í þessu efni, þá var einmitt grundvallarforsendan í mínum málflutningi sú að sparnaður er minni hjá okkur en hjá þessum þjóðum. Þær þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að sparnaður til fjárfestingar sé að minnka í sínu atvinnulífi. Það er þess vegna sem ég er á móti þessari skattheimtu. Það er ekki á neinum grundvallarforsendum eins og ég sagði í minni ræðu. Það er vegna þess að ég tel þetta óskynsamlegt vegna þess hvaða áhrif það hefur á peningakerfið, bankakerfið og vextina sem hinn almenni borgari þarf að greiða í landinu.

En varðandi málamiðlanir, þá hef ég ekki gert neina málamiðlun í þessu máli, hvorki í mínum þingflokki né annars staðar en hins vegar sýnt ákveðið umburðarlyndi vegna þess að það var verið að reyna að ná víðtækri samstöðu um lausn í þessu máli. Sú samstaða hefur greinilega brostið og því er engin forsenda fyrir því að ég sýni málinu umburðarlyndi.

En það er reyndar ánægjulegt að hv. 9. þm. Reykn. er aftur kominn í salinn og ég held að það hefði að minnsta kosti verið fræðandi fyrir hann að vera í salnum þegar hv. formaður Alþfl., Jón Baldvin Hannibalsson, 9. þm. Reykv., hélt ræðu sína áðan og hreinlega tugtaði hv. varaformann sinn til vegna þess hvernig hann stóð sig í nefndarstarfinu og hvaða verki hann hefði skilað þar. Það hefði hins vegar verið gaman að sjá hann fara upp í andsvar við hv. formann Alþfl. til þess að verja þar gerðir sínar í nefndinni. (RG: Þetta er ósæmilegt. Þetta voru almennar umræður formanns.)