Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 18:48:51 (4836)

1996-04-16 18:48:51# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:48]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fengið það staðfest hér og nú að ástæðan fyrir því að hv. þm. hefur kosið að hverfa frá svonefndri málamiðlun og því að hann ætli að styðja þetta stjfrv. er sú að hv. stjórnarandstaða er með aðrar hugmyndir um leiðir í málinu. Hv. þm. sem hér stendur gerði ekki meira en það í því nefndaráliti sem hér hefur verið margrætt, að hafa fyrirvara um leiðir að þessum markmiðum. Nú hins vegar kemur það í ljós að hv. stjórnarþingmaður Árni Mathiesen samþykkti það með semingi í sínum þingflokki, en þó með fyrirvara um það að stjórnarandstaðan ætti líka að samþykkja þetta frv. óbreytt til þess að hann gæti stutt það. Þetta er orðið ákaflega kúnstugt fyrirkomulag, virðulegi forseti. Og ég spyr: Eru þetta einhver ný vinnubrögð sem við í stjórnarandstöðunni megum vænta að gildi um önnur hin stóru mál? Eru einhver þau mál eða stjfrv. sem hv. þm. eða aðrir stjórnarþingmenn hafa samþykkt í sínum þingflokki, háð þessum saman fyrirvara, nefnilega þeim að ef stjórnarandstaðan leggst gegn þeim, þá séu þeir lausir allra mála? Þetta eru algerlega glæný vinnubrögð á hinu háa Alþingi og segir kannski meira en minna um þann innri styrk sem þessa ríkisstjórn vantar þrátt fyrir hinn öfluga og stóra þingmeirihluta í þingmönnum talið, 40:23. Þetta er auðvitað spásögn um það sem koma skal þegar þetta kjörtímabil mun líða. Upp úr þessari ríkisstjórn mun brotna innan frá og hv. ágæt stjórnarandstaða þarf auðvitað lítið að öðru leyti að hjálpa til við það þegar hún fer að molna að innan og týna tölunni og hinn stóri þingmeirihluti þeirra að verða æ minni og minni þar til öxin og sverðið falla í komandi kosningum.