Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:25:31 (4845)

1996-04-16 19:25:31# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal er einn af þeim fulltrúum stjórnarflokkanna sem er mjög duglegur að taka þátt í umræðum. Hann tekur mjög mikinn þátt í þingstörfum þó ég hafi sjálf aldrei haldið því fram að þingstörf í sal séu mælikvarði á þingstörf þingmanna. En miðað við það hefur hann staðið sig mjög vel fyrir hönd síns flokks. Ég lasta það ekki og ég lasta það heldur ekki að hann er í umræðunni í dag. Ég vek bara athygli á þeim ástríðuhita sem hann hefur lagt í málið og það vekur sum okkar kannski dálítið til umhugsunar.

Varðandi það þegar hann vísar til nefndarstarfsins vil ég bara árétta að fulltrúar bæði Alþfl. og Alþb. gerðu mjög vel grein fyrir afstöðu sinni í dag varðandi afgreiðslu mála úr nefndinni. Það kom m.a. fram hjá Bryndísi Hlöðversdóttur, og ég var undrandi að heyra það, að þeim hefði borist til eyrna að verið væri að endurskoða tekjuskattskerfið í annarri nefnd og þar var auðvitað stjórnarandstaðan ekkert með. Þessi ofuráhersla á að stjórnarandstaðan hefði komið að nákvæmlega þessu frv. hefur gert það að verkum að það er eins og það sé smáleikrit í gangi með framlagningu þess og það hvernig tekið hefur verið á þessu máli. Fulltrúar okkar, Alþfl. og Alþb. hafa mjög vel og skilmerkilega gert grein fyrir afstöðu sinni og ég hef sjálf komið inn á það að að margra áliti hefði verið ásættanlegt að skoða 10% vaxtaskatt, þótt flatur sé. Væntanlega er það af því að menn þurftu að semja um einhverja niðurstöðu, ekki við okkur í stjórnarandstöðu heldur við aðra, sem þeir tóku inn arðinn. Þetta er mál sem verður að horfast í augu við. Hins vegar tek ég eftir því að hv. þm. áréttar það að hann var ekkert hlynntur þessari skattlagningu. Ég er ekkert hissa á því. Hann er að ergja sig yfir því að við séum að tala um einhvern undandrátt. Við skulum ekki gleyma því að venjulegi launamaðurinn sér umsvifin, eignirnar, neysluna og reksturinn hjá nágranna sínum og þegar hann skoðar skattamálin eru greiðslur hans allar löglegar. Það er því ekki einu sinni hægt að tala um skattsvik heldur eru það tækifærin sem sumum gefst til að hagræða tekjum sínum eins og best hentar sem gilda. Og það er verið að gefa slík tækifæri eins og ég sýndi fram á með dæmi sem ég fór skýrt og skilmerkilega í gegnum.