Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:28:20 (4846)

1996-04-16 19:28:20# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:28]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Í upphafi málsins vék hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir að því að ég hefði ekki viljað gæta réttlætis í skattlagningu. Það er algjör mistúlkun á mínum orðum. Það sem ég hins vegar sagði var að það væri afar erfitt að gæta réttlætis í skattlagningu, þar orkar svo margt tvímælis. Það hefur margsinnis í fortíðinni ekki verið gert og að réttlæta einn tiltekinn skatt með því að hann sé sérstakur réttlætisskattur er þar af leiðandi ekki skynsamlegt samanborið við annað sem við hefðum gert. Við verðum að láta það sama gilda um allt og því er afar erfitt fyrir okkur að endurskoða alla skattalöggjöfina í ljósi þessa réttlætis sem verið er að tala um varðandi vaxtatekjuskattinn. Í máli mínu lýsti ég því jafnframt hvernig þetta réttlæti kæmi fram í væntanlegum vaxtahækkunum á bankalánum til hins almenna borgara. Þar er réttlæti í málinu ekki að finna að mínu mati.