Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:32:10 (4850)

1996-04-16 19:32:10# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, GÁ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:32]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Allir skattar orka tvímælis og erfitt er að kortleggja áhrif þeirra. Oft og tíðum hefur annað komið í ljós en menn ætluðu. Hér hefur í dag talað mikill frelsari í skattamálum, hv. 9. þm. Reykv., Jón Baldvin Hannibalsson. Ég hef séð hann boða nýja skattatrú á Alþingi og koma í gegn heilum lagabálkum um breytingar. Ég hygg eftir á að fróðlegt væri að rifja þann boðskap upp og hvernig hann gekk eftir. Ég minnist þess að þessi hv. þm. barði staðgreiðslukerfið áfram sem ráðherra. (Gripið fram í: Það gengur vel, það hefur reynst vel.) Gengur vel en launþegarnir eru snauðari á eftir. Sem ráðherra barðist hv. þm. fyrir virðisaukaskatti og ég man eftir að hann taldi á fingrum sér og sagði áhrif af þessum tveimur gjörðum yrðu þær að skattsvik heyrðu sögunni til á Íslandi. Skattsvik hafa að sögn fróðra manna aldrei verið meiri en í dag.

Eins og hér hefur komið fram hefur þessi hv. þm. staðið að jaðarsköttum og síðasta ríkisstjórn ber þar mikla ábyrgð. Ég vil segja um þennan skatt eins og marga aðra að hann orkar tvímælis. Ég vil þó strax lýsa því yfir að ég tel það mjög eðlilegt og hef talað fyrir því í flokki mínum að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp. Það væri mjög eðlilegt að fjármagnið ekki síður en vinnan eða eignirnar, sem væru að skila einstaklingunum tekjum, sætu við sem líkast borð. En skattar hafa því miður líka það lögmál að þeir vilja hækka og vondir skattar, sem settir eru á til skamms tíma, búa við það lögmál að þeir vilja haldast og jafnvel hækka líka og vara að eilífu. Amen. Þannig hefur nú því miður verið.

Við getum séð hvernig tekjuskatturinn í staðgreiðslunni hefur þróast, kominn upp í 42%. Við getum séð hvernig virðisaukinn hefur þróast, orðinn 24,5%. Framsfl. stöðvaði á dögunum að hann færi í 25%. Það er alltaf auðvelt að hækka skatta en það skilar ríkissjóði ekki alltaf miklu. Ég minnist þess að á síðasta kjörtímabili var tekjuskattur á fyrirtækjum lækkaður. Hvað þýddi það? Það þýddi að ríkissjóður fékk meira inn á eftir. Auðvitað geta skattar orðið of háir og þá leitar fólkið sinna leiða.

Ég vil segja eins og hæstv. félmrh. af því að ég sá það nál. sem hér hefur verið rætt um að ég var sama sinnis og hann að hér væri merkileg pólitísk staðreynd á ferðinni þar sem stjórn og stjórnarandstaða hefðu náð saman um mál. En því miður verður að segjast eins og er að stjórnarandstaðan hefur í dag með mjög ómerkilegum hætti gert menn sína að ómerkingum. Ég vil lesa til áréttingar lesa, með leyfi forseta, hluta af þeirri bókun sem hér er og hljóðar svo:

,,Í ljósi þess sem að ofan greinir skrifa undirrituð undir nefndarálitið og telja það ásættanlegt með vísan til bókunar þessarar en áskilja sér allan rétt í málinu þegar það kemur til kasta Alþingis og almennrar þjóðfélagsumræðu --- sem og þeir stjórnmálaflokkar Alþfl., Alþb., Þjóðvaki og Kvennalisti sem þau eru fulltrúar fyrir í nefnd um fjármagnstekjuskatt, þar með að styðja brtt. sem til bóta geta talist en sættast á og styðja niðurstöður nefndarálitsins að þeim frágengnum.``

Skýrari getur gjörðin ekki verið og það sem meira er að þessi bókun og þessi gjörð gekk til allra þingflokkanna. Þingflokkar stjórnarandstöðunnar fjölluðu um þetta mál, blessuðu gjörðir manna sinna og sögðust fylgja því. En þeir voru eins og Njáll forðum því að þeir tóku sér leyfi til að verða vitrari ef betri tillögur kæmu fram. (Gripið fram í: Hann var Sunnlendingur.) Hárrétt, hv. þm., og Njáll á Bergþórshvoli var til fyrirmyndar í löggjafastörfum. (Gripið fram í: Það endaði nú ekki vel hjá honum.) En þarna flýja stjórnarandstöðuflokkarnir frá og gera menn sína að ómerkingum og eru á flótta.

Hæstv. forseti. Ég hafði efasemdir í þingflokki mínum um að málið væri fullkomið. Ég dró fram ýmsar efasemdir þegar þingflokkurinn var að fjalla um málið. Mér fannst einfaldleikinn að vísu tiltölulega góður í málinu en það var tvennt sem hræddi mig. Það var að lífeyrissjóðirnir skyldu ekki sitja við sama borð og kem ég nánar að því og það var að hlutabréfaeigendur væru að hagnast á málinu. Enn fremur hræddi það mig alveg geysilega þegar ég sá hverjir sátu í nefndinni. Ég fann að varnarmaður litla mannsins, sem á sitt saklausa fé í banka, var vart til staðar. Formaður nefndarinnar var Ásmundur Stefánsson. Það er langt síðan hann var í ASÍ. Hann hefur fyrir löngu gengið Mammoni á hönd. Hann er einn af æðstu bankastjórum Íslandsbanka og hugsar sjálfsagt öðruvísi. (Gripið fram í: Ert þú líka hjá Mammoni?) Ég er aðeins óbreyttur bankaráðsmaður. Ég er að tala um einn af þeim sem stjórna fjármálum einkaframtaksins, Íslandsbanka. (Gripið fram: Þeir heyra nú yfir bankastjórana.) Hygg ég nú að skoðanir hans hafi þarna ráðið nokkru fyrir utan hitt að ég sá að nefndarmenn voru skipaðir í þeim anda að þeir mundu gæta mjög hagsmuna lífeyrissjóðanna og hlutabréfaeigenda. Þar er Ásmundur Stefánsson, þar vil ég nefna Björn Grétar Sveinsson, þar vil ég nefna hv. þm. Pétur H. Blöndal, þar vil ég nefna Þórarin V. Þórarinsson. Hygg ég að það hafi komið í ljós að þeir hafi ráðið nokkuð ferð um hvernig málið þróaðist. Ég er því ekki fullkomlega sáttur við frv. eins og það lítur úr og hefði vel getað hugsað mér eins og stjórnarandstaðan að leita að betri tillögum en standa að málinu, fjalla um það hér með þinglegum hætti bæði í þinginu og í þeirri nefnd sem það fer í og reyna að fullkomna málið í störfum Alþingis. En mér finnst lítilmótlegt af stjórnarandstöðunni að flýja frá málinu, gera menn sína að ómerkingum. Þeir hafa lagt fram allt önnur frv. Þeir boðuðu eins og ég las hér áðan að þeir gætu fylgt brtt. og komið með brtt. en þeir eru komnir með heilu frv. og að mínu viti hafa þeir sundrað að töluverðu leyti þeim möguleika að menn nái utan um þetta mál því þetta er mjög viðkvæmt mál.

Ég vil enn fremur fara yfir nokkur atriði. Það er engin vafi í mínum huga að sparnaður í þjóðfélaginu er mjög mikilvægur og hinn almenni sparnaður þarf að eiga sér stað og það þarf að venja fólk á að spara peninga frá unga aldri. Eins og hér hefur komið fram í umræðunni í dag var sparnaður hér orðinn nánast enginn fyrir verðtryggingu en hefur vaxið mjög síðan. Hygg ég að þetta þjóðfélag væri illa statt eða verr statt ef menn hefðu ekki náð því fram að stöðva brunann á sparifé landsmanna. En ég minntist á að þarna væri það sem ég óttaðist að lífeyrissjóðirnir eiga ekki að sitja við sama borð. Lífeyrissjóðirnir með allt sitt fé ... (Gripið fram í: Litla mannsins.) Litla mannsins, en eigi að síður gífurlegt fé, fé sem í dag er í vaxandi samkeppni við peninga sem bankakerfið ræður yfir. Segja má að á síðustu árum hafi orðið mjög merkileg þróun. Við skulum hugsa til þess að árið 1987 réði hinn kerfisbundni sparnaður eða lífeyrissjóðirnir yfir 90 milljörðum. Þá réði bankakerfið eða hinn frjálsi sparnaður einnig yfir 90 milljörðum. Árið 1991 réðu lífeyrissjóðirnir yfir 217 milljörðum en bankakerfið yfir 201 milljarði. Árið 1995 var þróunin orðin sú að lífeyrissjóðirnir réðu yfir 314 milljörðum en bankakerfið yfir 250 milljörðum. Þessi mismunur á eftir að aukast á næstu árum. Lífeyrissjóðirnir eru komnir út á hinn almenna markað og í vaxandi mæli taka þeir stærstu og bestu viðskiptavinina af bankakerfinu. Það sem ég óttast mest í þessu máli ef frv. fer svona fram og verður að lögum er að þarna muni myndast hyldýpisgjá. Og að það muni einnig gerast að almenningur muni fremur vilja verja peningum sínum með öðrum hætti en að spara þá inni í bankakerfinu. Það gæti þýtt að vextir mundu hækka á Íslandi. Þá væri verr farið en heima setið ef það yrði afleiðing af málinu en vissulega gæti leitt af sér.

Þá tek ég undir með þeim manni sem ég minntist í upphafi ræðu minnar, hv. 9. þm. Reykv. Jóni Baldvini Hannibalssyni, að þá væri verr farið ef skuldug fyrirtæki og skuldugir húsbyggjendur sætu eftir með hærri vexti en áður.

[19:45]

Við skulum líka velta fyrir okkur hverjir eiga peningana í bankakerfinu. Hverjir eru það í meginatriðum? Yfir 60% af sparifénu í bankakerfinu eiga þeir sem eru 60 ára og eldri og hafa lagt þá þar fyrir sjálfum sér og sínum til hjálpar. Ég finn það núna þrátt fyrir tiltölulega háa vexti á bestu bókum bankanna, sem eru kannski þó ekki nema 5--6% raunvextir, að margur kvartar undan að þeim þyki vaxtagreiðslur lágar. Þannig að ég gæti óttast það að þegar ríkið færi að taka 10% þá mundi þessi flótti með einhverjum hætti eiga sér stað og þetta fólk vildi verja peningum sínum í annað sem er kannski einmitt óskyggja þeirra nefndarmanna sem mér finnst að hafi látið hjarta sitt slá hér fremur með hlutabréfamarkaðnum en hinum frjálsa sparnaði í bankakerfinu. Og þetta leiðir af sér að við hækkum jaðarskatta á eldra fólki.

Hitt er líka vert að íhuga við þetta mál að menn mega ekki ana í það þannig að allir tapi á því. Tíminn í dag segir t.d. frá því að vaxtagreiðslur ríkissjóðs hækkuðu um 16% í fyrra og voru 12,4 milljarðar. Og segir frá enn fremur að 1,4 millj. kr. fari í vexti á hverri klukkustund hjá ríkinu. Nú er þarna um að ræða að hluta til erlendar skuldir en að hluta til innlendar. Og hér er talað um að þessi skattur muni skila ríkissjóði kannski 600--700 milljónum til að byrja með og kannski meira síðar. En það gæti farið svo að ríkið stæði eftir og hefði tapað á tiltækinu. Þess vegna vil ég nú trúa því að miðað við þann vilja sem kom fram í starfi nefndarinnar að þingnefndin muni fara mjög vel yfir þetta og þingflokkarnir og menn reyni að ná saman um skynsamlegar tilfærslur eða lagfæringar á frv. Það er enginn vafi í mínum huga að útfærslan er ekki eins og hún á að vera. Mér finnst, því miður, eins og ég gat um í mínum þingflokki og hef hér nefnt, að þeir sterku sem aðallega eiga peninga í bréfum græði stórlega ef þessar tillögur ná fram en hinir gætnu sparendur sem eru að leggja lítið fyrir í hverjum mánuði og eiga sitt í bankakerfinu muni gjalda og verði að gjalda skattmanni allt sitt og gott betur, jafnvel eins og komið hefur fram í dag, ekki bara 10% af vöxtunum heldur froðuna líka. Er þar vert að sjá ef maður skoðar ákveðna bók að 12% verðbólga hirðir alla vextina af ákveðnu formi. Þannig að ég tel að þingið standi frammi fyrir því að málið hefur dálítið sundrast. Það hefur ekki fallið alveg nógu heppilegan farveg. Stjórnarandstaðan hefur með ómerkilegum hætti hlaupið frá því ... (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Það segir hér allt hv. þm. í bókunum --- og stjórnarliðar margir ekki sannfærðir.

Ég vil ljúka máli mínu með að trúa því að Alþingi hafi enn tíma til þess að færa þetta mál í betri búning og geti náð fram skynsamlegum fjármagnstekjuskatti þar sem allir fjármagnseigendur sitja við sama borð og það slys gerist ekki að við séum að hygla milljarðaeigendum stórlega. Ég vil ekki að hagsmunum sparifjáreigenda og bankanna verði fórnað því ég geri mér grein fyrir því að ef þetta fer illa, verða vextir að hækka í bankakerfinu og þá fer illa fyrir mörgum.

Ég lýk ræðu minni, forseti, með þeim orðum að þingflokkarnir og nefndin fari á ný yfir þetta mál og þingið reyni sem heild að ná saman um svona viðkvæmt en viðamikið og mikilvægt málefni.