Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:55:00 (4853)

1996-04-16 19:55:00# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:55]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagðist hafa lýst efasemdum sínum um stjfrv. í umræðum í þingflokki sínum. Það er sjálfsagt að meta umhyggju hans fyrir hag sparifjáreigenda því ég hygg að það sé rétt sem komið hefur fram í þessum umræðum, að hér er verið að fórna hagsmunum sparifjáreigenda fyrir skattívilnanir til tiltölulega fámenns hóps stórra fjármagnseigenda sem eiga umtalsvert hlutafé. Þá er á það að benda af því hv. þm. nefndi hina íþyngjandi jaðarskatta, að það frv. sem hann þrátt fyrir allt ber ábyrgð á sem stjórnarþingmaður mun valda tekjutapi fyrir ríkissjóð en ekki skapa honum tekjur. Þar með brestur bogi þeirra stjórnarliða. Ef forgangsmálið ætti að vera það að létta skattbyrði þeirra sem verst eru leiknir í núverandi skattkerfi, þeirra sem bera hina hæstu jaðarskatta, er ekki hægt að nota tekjurnar af þessum svokallaða vaxtatekjuskatti því þær verða engar og minni en engar til þess að ráða bót á því. Ég átti kannski von á því að hv. þm. hefði minnst þess, þegar hann lýsti efasemdum sínum, að hann hefði rifjað upp kosningaloforð þeirra framsóknarmanna í seinustu kosningum. Það er alveg víst að þeir lofuðu þá aldrei neinum manni að það yrði þeirra forgangsmál að lækka skatta á þeim sem eru efnamestir í þessu þjóðfélagi.