Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 20:12:56 (4864)

1996-04-16 20:12:56# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[20:12]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þau frumvörp sem eru hér til umræðu eru illa unnin, bæði að formi og efni, og ég ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að forminu sjálfu sem frumvörp þessi byggja á.

Í 1. mgr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er svofellt upphafsákvæði sem skýrir tillgang þeirra laga, með leyfi forseta:

,,Staðgreiðsla opinberra gjalda samkvæmt lögum þessum er bráðabirgðagreiðsla tekjuskatts og útsvars launamanna á tekjuári.``

Í því frv. sem hér er lagt fram um skattlagningu vaxtatekna er hins vegar blandað saman annars vegar endanlegu greiðsluuppgjöri lögaðila og hins vegar bráðabirgðagreiðslum einstaklinga í staðgreiðslukerfi. Ég þekki ekkert dæmi um slíkt og ég vildi gjarnan að hv. þm. Pétur Blöndal væri viðstaddur því að hann er sá eini í þinginu sem hefur gengist við þessu frv. og faðerni þess því að hæstv. fjmrh. hefur verið víðs fjarri og látið eins og þetta sé a.m.k. ekki miklu meira en stjúpbarn hjá sér í þinginu en hv. þm. Pétur Blöndal hefur hagað sér eins og sá sem valdið, frumkvæðið og ábyrgðina ber.

Eitt af undirstöðuatriðum í skattalögum á að vera og er hvarvetna ákvæði um eftirlitshlutverk skattyfirvalda, aðgang þeirra að upplýsingum og viðurlög við brotum. Í því frv. um vaxtatekjuskatt, sem hér hefur verið lagt fyrir, er hvergi gert ráð fyrir því að skattstjórar geti sannreynt skattskil. Ég finn þar hvergi ákvæði sem heimilar skattstjórum að kalla eftir upplýsingum og engin ákvæði um viðurlög. Ég sé ekki hvernig hægt er að framfylgja refsingu eða koma henni fram fyrir brot á ákvæðum laganna.

[20:15]

Svo að við tökum mjög ákveðið dæmi um það hvað ég er að ræða þá eru í 94. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ákvæði sem heimila t.d. skattstjórum að krefjast upplýsinga um arðgreiðslur og húsaleigutekjur til þess að þeir geti fylgst með því að rétt skattskil séu þar á gerð. Eftir að skattmeðferð arðgreiðslna og húsaleigubóta hefur verið breytt, ef frv. þetta verður samþykkt, eru engin ákvæði sem tryggja skattyfirvöldum lengur að geta fengið upplýsingar eða krafist upplýsinga um arðgreiðslur og húsaleigutekjur, og hvernig skyldi þá ganga um skil til ríkisins á skatti af þeim greiðslum? Ef ég hefði tíma mundi ég líka gjarnan vilja fara í gegnum frv. grein fyrir grein því að annað eins klúður í lagasamsetningu hef ég sjaldan séð. Til þess að taka eitt dæmi vil ég beina athygli hv. þm. að 2. mgr. 7. gr. en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Sú fjárhæð sem reiknast skv. 3. mgr. skal vera endanleg álagning á fjármagnstekjur. Skulu engin önnur opinber gjöld, sem reiknuð eru á tekjuskattsstofn, leggjast á þessar tekjur. Sömuleiðis skulu tekjurnar ekki taldar til tekjuskattsstofns við útreikning tekjuviðmiðunar barnabótaauka samkvæmt lögum þessum eða til viðmiðunar við útreikning bóta eða annarra greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um húsaleigubætur eða öðrum lögum nema sérstaklega sé kveðið á um það í þeim lögum. Um afdrátt skatts af vaxtatekjum og arði samkvæmt þessari málsgrein skulu á tekjuárinu gilda lög um staðgreiðslu skatts af slíkum tekjum samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í þeim lögum.``

Nú spyr ég: Hver hefur samið þetta? Hvað þýðir þetta? Þetta var eins og í gamla daga þegar menn voru að reyna að brjótast í gegnum Hegel og töldu sig vera búna að skilja þegar kom niður blaðsíðuna en þá kom neitunun efst á blaðsíðunni ef maður fletti við. Hver hefur samið þessi ósköp?

Ég hef því miður ekki tíma til að fara mjög nákvæmlega í saumana á formsatriðum frv., þ.e. hvernig frá þeim er gengið, en það er illa unnið. Það setur framkvæmdaaðila í stórvanda. Eftirliti með skattskilum verður ekki við komið og það er eins og þetta hafi verið unnið í sem mestri fjarlægð við alla þá sem fjallað hafa um skattamál í íslensku stjórnkerfi og eiga að tryggja að frumvörp, sem eru lögð fram um skattamál séu framkvæmanleg, það sé hægt að hafa eftirlit með þeim og þau séu á mannamáli sem tjái skilning á því sem þar er hugsað. Ég geri þá kröfu til þeirrar nefndar sem fær þetta mál til sín að hún kalli eftir umsögnum þeirra aðila í skattkerfinu sem eiga að framkvæma þessi ósköp eins og frá frv. er gengið af hálfu Péturs Blöndals og félaga. Ég geri þá kröfu, herra forseti, að leitað verði til þeirra sem eiga að sjá um framkvæmdina á málinu og fengin umsögn þeirra og ég leyfi mér að fullyrða að þeir sömdu þetta ekki. Það er dálítið merkilegt til þess að vita eftir allar þær langlokur sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur haft uppi um skattamál áður en hann var kjörinn til þings að fyrsta þingmál sem hann ber ábyrgð á um skattamál, sem lagt er fram á Alþingi Íslendinga, skuli vera vitlausasta skattafrv. sem ég hef séð í þau rúmlega 20 ár sem ég hef setið hér. Ekki vegna þess endilega að efnið sé svo vitlaust, heldur vegna þess að málið er svo illa unnið, lýsir slíkri handarbakavinnu og er svo óskýrt að í hnúkana tekur.

Frumvörp þau sem hér eru rædd eru ekki frumvörp um skattlagningu fjármagnstekna heldur um lækkun skatta á arðgreiðslum til stóreignamanna og ef þau verða samþykkt er það stærsta gjöf sem Alþingi Íslendinga hefur nokkurn tíma fært stóreignamönnum í landinu og mig langar til þess að taka nokkur dæmi. Dæmin sanna að vísu ekki en dæmi skýra.

Í fyrsta lagi eru um 18 þúsund einstaklingar í landinu sem eiga hlutabréf. Allflestir þeirra eða um 16 þúsund af þessum 18 eru smáhluthafar og eru með hlutafjáreign svo lága að þeir þurfa ekki að borga skatt af arði af hlutabréfum sínum. Nokkur hundruð einstaklinga af þeim 18 þúsund, sem hér eru taldir, eiga hins vegar miklar eignir. Þeir hafa af arði af þessum eignum sínum hingað til þurft að borga 44%. Nú á að breyta þessu, og hvernig? Það á að lækka skattgreiðslur þessara nokkur hundruð stórefnamanna af tekjum af hlutabréfum sínum úr 44% niður í 10%. En það á að taka alla litlu mennina sem eiga smávegis af hlutabréfum í eigu sinni undir skattleysismörkum og skattleggja þá um 10%. Hverjum er verið að hjálpa? Það er verið að hjálpa nokkur hundruð stóreignamönnum á kostnað mörg þúsund manns sem á óverulegar eignir í hlutabréfum.

Tökum annað dæmi. Það hefur komið fram að samanlagðar reiknaðar tekjur og hreinar uppgefnar tekjur þeirra sem stunda sjálfstæðan atvinnurekstur mynda álagningarstofn upp á um 21 milljarð kr. Samkvæmt gildandi lögum er greiddur tekjuskattur á milli 7 og 8 milljarða kr. af þessari eign. Verði umrætt frv. að lögum er möguleiki á því að hægt sé að breyta þessu fyrirkomulagi og greiða aðeins um einn fjórða af því í skatta sem menn hafa hingað til þurft að greiða af þessum tekjum. Hv. þm. Pétur Blöndal skilur ekki að það sé hægt. Það er mjög einfalt.

Setjum sem svo að hv. þm. sé einn af þessum aðilum og reki t.d. tannlækningastofu. Hann getur hæglega lagt þær eignir fram ásamt jeppanum sínum og tækjum til stofnunar einkahlutafélags og síðan leigt þær eignir út til annars einkahlutafélags sem sér um rekstur tannlæknastofunnar, greiðir viðkomandi fyrra einkahlutafélagi leigu fyrir þá verðmætu muni sem viðkomandi hefur aðgang að. Sá sem leigutekjurnar fær getur hvort sem hann vill lagt þær inn í banka eða enn frekar keypt verðbréf vegna þess að verðbréfavextir gjaldfalla ekki fyrr en á innlausnardegi mörgum árum síðar og losnar þannig við að greiða verulegan hluta af þeim skattgreiðslum sem hann gerir í dag. Ef hv. þm. skilur þetta ekki, þá get ég bent honum á nokkra endurskoðendur sem eru að undirbúa nákvæmlega þetta fyrir fólk. Ég trúi því ekki að maður sem er jafn vel að sér í því hvernig eigi að reka fyrirtæki með árangri og hagnast á því og hv. þm. Pétur Blöndal skuli ekki vita hvernig þetta er gert.

Við skulum taka þriðja dæmið. Það er sagt að verið sé að reyna að jafna aðstæður manna. Gera menn sér grein fyrir því að hjón sem hafa allar tekjur sínar af arði, vöxtum eða leigutekjum hafa samkvæmt þessum frumvörpum skattlausar tekjur 5,7 millj. kr. á ári. Skattleysismörk fjölskyldna eða hjóna, sem hafa tekjur af hlutafjáreign og arði, söluhagnaði og leigu, eru 5,7 millj. á ári. Það er ekki fyrr heldur en tekjurnar ná yfir 5,7 millj. á ári sem sú fjölskylda eða þau hjón fara að greiða skatt. Finnst mönnum ekki nokkur munur á því, virðulegi forseti, og skattleysismörkum venjulegs fólks sem hefur aðeins tekjur af vinnu sinni?

Við skulum taka dæmi úr raunveruleikanum og vita hvort hv. þm. kannast við það. Fyrirtæki nokkurt, sem er hlutafélag og ég ætla ekki að nefna, og er að hálfu leyti eign 10 einstaklinga hefur samkvæmt opinberri skráningu uppgefið í gengi hlutabréfa í fyrirtækinu á sex- til sjöföldu nafnverði. Ef þessir 10 einstaklingar ætluðu að ,,realísera`` eign sína í dag og selja þessi bréf sín mundi söluhagnaður þeirra nema 850 millj. kr. Miðað við gildandi skattalög þyrftu þeir að greiða 300 millj. þar af í tekjuskatt. Ef frumvörp ríkisstjórnarinnar verða samþykkt breytist þetta á einni nóttu. Hvernig? Eignin minnkar ekki, verðið á hlutabréfunum lækkar ekki, en það er skatturinn sem lækkar úr 300 millj. kr. í 80 millj. þannig að á einni nóttu er verið að færa þessum 10 einstaklingum 220 millj. kr. að gjöf í skattlausri eign verði þessi frumvörp samþykkt auk þess hagræðis sem þeir munu njóta í einkaskattlagningu vegna arðgreiðslna. 220 millj. til 10 einstaklinga á einni nóttu með þessari breytingu í hreina gjöf. Hverjum er verið að hjálpa? Er það litla manninum?

Við skulum taka enn annað dæmi úr raunveruleikanum. Nafnvirði hlutabréfa takmarkar nú þann arð sem greiða má skattfrjálst. Samkvæmt frv. verður gerð breyting á því og ekki miðað við nafnverð heldur svonefnt jöfnunarverð. Til er starfandi fyrirtæki á Íslandi, hlutafélag, sem er með nafnverð hlutabréfa sinna upp á einn milljarð kr. og getur nú greitt að hámarki 100 millj. í skattfrjálsan arð. Með þessari breytingu hækkar skattfrjáls arðgreiðsluheimild í 200--300 millj. kr. á ári, með öðrum orðum hún tvö- til þrefaldast. Það hefur þau áhrif að fyrirtæki sem við núgildandi skattalög greiðir 50 millj. kr. í tekjuskatt lækkar tekjuskattsgreiðslu niður sínar í 6 milljónir. Og þeir eigendur sem fá greiddan arð eftir breytinguna hagnast líka á því um mikla fjármuni hver og einn. Fyrir hvern er verið að gera þessa breytingu?

Hv. þm. og þeir sem mæla fyrir þessu frv. segja líka að hér sé verið að taka upp staðgreiðslu á vexti. Það er ekki rétt því að eins og ég sagði áðan eru nær öll verðbréf, skuldabréf ríkissjóðs, skuldabréf sveitarfélaga og bankabréf ekki seld með vaxtaákvörðunum heldur með afföllum. Af þeim verðbréfum er enginn staðgreiðsluskattur vaxta greiddur því að hann gjaldfellur ekki fyrr en á innlausnardegi sem getur verið mörgum árum síðar þannig að á hvað virkar staðgreiðslan? Hún virkar fyrst og fremst á banka- og sparisjóðsinnstæður einstaklinga og hverjir eru það sem eiga banka- og sparisjóðsinnstæður? Það er að miklum meiri hluta almennt launafólk með launareikninga sína, börn sem eru að safna, gamalmenni og lífeyrisþegar. Það eru þeir sem eiga að borga staðgreiðsluna en ekki þeir sem eru með verðbréfaeign.

[20:30]

Við skulum taka enn eitt dæmi úr raunveruleikanum. Það er talsvert um að eignir ýmiss konar félaga og félagasamtaka, t.d. sóknarnefnda eða kirkjusókna og ýmissa félaga séu geymdar í bönkum eða sparisjóði á nafni sjóðshaldara. Nú verður framkvæmdin þannig að það er tekinn skattur, vaxtaskattur að sjálfsögðu, af vöxtum af þessum inneignum. Ef sjóðshaldarinn er hins vegar með ónýttan persónuafslátt, gjaldkeri sóknarnefndarinnar eða sjóðshaldari félagsins, fær hann prívat og persónulega sendar endurgreiðslur í tékka frá skattyfirvöldum á þeim vaxtaskatti sem félagið sem hann veitir forstöðu eða hefur fjársýslu fyrir hefur greitt. Þannig er þetta. Menn segja nei. Hæstv. fjmrh. segir nei. Ég fullyrði hið gagnstæða og ég bið hæstv. fjmrh. sem ekki vill gangast við faðerninu að þessu frv. að afla sér upplýsinga hjá starfsmönnum skattkerfisins um það hvort rangt sé með farið.

Þetta þýðir líka að t.d. foreldrar sem eiga börn eldri en 16 ára sem ekki hafa atvinnutekjur, eru t.d. í skóla og hafa því ónýttan persónuafslátt, geta losnað undan vaxtaskatti sem ónýttum persónuafslætti nemur með því einfaldlega að flytja bankainnstæður sínar yfir á nafn barna sinna í bönkum og sparisjóðum og nýtt sér þannig ónýttan persónuafslátt barna sinna ef þau svo kjósa. Ég er því hræddur um að það verði skrýtið upplitið á þeim sem eiga að framkvæma umrædd frumvörp verði þau að lögum.

Herra forseti. Tíma mínum er að verða lokið. Ég ítreka að frumvörpin sem hér eru lögð fram eru ekki bara stórgölluð að inntaki. Inntak þeirra er það eitt að létta stórkostlega byrðum af þeim sem eiga umtalsverðar eignir í formi hlutabréfa eða hafa umtalsverðar tekjur vegna eignaumsýslu eða útleigu húsnæðis. Form frumvarpanna eins og þau eru kynnt á Alþingi er þess eðlis að það er ekki gert ráð fyrir eftirlitshlutverki skattyfirvalda, aðstöðu skattyfirvalda til að krefjast upplýsinga eða aðstöðu skattyfirvalda til að koma fram viðurlögum. Þetta þarf að athuga í þeirri nefnd sem málið fær til umfjöllunar.