Erlendar skuldir þjóðarinnar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:39:45 (4869)

1996-04-17 13:39:45# 120. lþ. 120.1 fundur 412. mál: #A erlendar skuldir þjóðarinnar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi PHB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:39]

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans. Það sýnir okkur að við erum á réttri leið í því að lækka erlendar skuldir. Betra hefði verið að fyrir lægi einhver áætlun um að ná þessum erlendu skuldum niður, t.d. fyrir árið 2015 og að sjálfsögðu mundu menn þá breyta þeirri áætlun ef Íslendingar réðust út í stórfelldar framkvæmdir og í ljósi þeirra lengja þetta bil. En ég vil benda á það að samkvæmt þessari þróun verða Íslendingar búnir að koma erlendu skuldunum niður í núll árið 2015 og þá munum við ekki lengur sligast undan háum vöxtum af erlendum skuldum. Í dag skuldar hver Íslendingur um 870 þús. kr. en fyrir þrem árum skuldaði hann milljón þannig að þetta er allt á betri leið.