Greiðsla kostnaðar við lækningaferðir psoriasissjúklinga

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:44:30 (4871)

1996-04-17 13:44:30# 120. lþ. 120.2 fundur 328. mál: #A greiðsla kostnaðar við lækningaferðir psoriasissjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:44]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Svar við fyrirspurn hv. þm. er eftirfarandi: Með lögum nr. 87/1989, um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, 11. gr., var ákvæði almannatryggingalaga um ferðir psoriasissjúklinga breytt þannig að ekki var lengur gert að skilyrði að meðferð færi fram erlendis. Eftir að þessi breyting varð að lögum verður að telja að tryggingaráði sé heimilt að fella niður greiðslur fyrir skipulagðar læknisferðir til útlanda svo sem gert var með rökstuddri ákvörðun tryggingaráðs þann 1. des. 1995, enda sé fyrir hendi raunhæfur meðferðarmöguleiki hérlendis sem styrktur er af sjúkratryggingum, samanber samning Tryggingastofnunar ríkisins um meðferð á Sjúkrastöð Bláa lónsins.

Ég vil hins vegar nefna það að nú eru nýkomnir frá Kanaríeyjum 15 sjúklingar sem er síðasti hópurinn sem fær meðferð samkvæmt reglum þeim er giltu fyrir 1. des. sl. Ég vil í þessu sambandi benda á að við höfum nú yfir að ráða miklu meiri og betri meðferð fyrir psoriasissjúklinga en áður var. Má þar nefna skipulega meðferð á Sjúkrastöð Bláa lónsins hf., tilkomu nýrra húðlyfja og öflugrar göngudeildarþjónustu fyrir húðsjúkdómameðferð, m.a. á vegum Ríkisspítala, Samtaka psoriasis- og exemsjúklinga og ýmissa heilsugæslustöðva. Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í kostnaði við allar þessar meðferðir hérlendis. Í sérstaklega erfiðum sjúkdómstilvikum er einnig unnt að sækja um greiðslur kostnaðar vegna meðferðar erlendis, sbr. 35. gr. almannatryggingalaga.

Virkni meðferðarinnar við Bláa lónið hefur verið könnuð vandlega og hafa rannsóknir sýnt að hún ber góðan árangur og umsagnir sjúklinga um meðferð þar eru góðar. Ég tel að fjármunum til meðferðar psoriasissjúklinga sé vel varið í meðferð hér á Íslandi hjá heilsufélaginu við Bláa lónið sem er alíslenskt framtak. Þar er fyrir sömu fjárhæð hægt að meðhöndla fleiri sjúklinga í lengri tíma heldur en á Kanaríeyjum.

Talað hefur verið um að það sé til mikillar andlegrar upplyftingar fyrir fólk með erfiðan sjúkdóm eins og psoriasis að komast til Kanaríeyja. Ég dreg það ekki í efa, enda hafa sjúklingarnir fengið verulegan bata í meðferðinni þar. En heitt loftslag dregur úr einkennum margra annarra langvinnra sjúkdóma. Má þar sérstaklega nefna alvarlega langvinna gigtarsjúkdóma.

Virðulegi forseti. Tryggingastofnun hlýtur að bregðast við vanda þeirra sjúklinga sem ekki geta nýtt sér þjónustu Bláa lónsins og tryggja að sjúklingar af landsbyggðinni eigi möguleika á því að fá þjónustu þar og einnig verður að skoða greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar í ferðakostnaði sjúklinga.