Greiðsla kostnaðar við lækningaferðir psoriasissjúklinga

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:49:42 (4873)

1996-04-17 13:49:42# 120. lþ. 120.2 fundur 328. mál: #A greiðsla kostnaðar við lækningaferðir psoriasissjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en ég hlýt jafnframt um leið, því miður, að lýsa yfir nokkrum vonbrigðum með þau. Ég er ósammála því áliti að tryggingaráði sé stætt á því að taka þessa ákvörðun eins og lögin standa og tel að það ætti þá að endurskoða þau ef það verður efnisleg niðurstaða að hætta með öllu þátttöku í kostnaði við þessar ferðir.

Ég tel í öðru lagi að það sé langt frá því að þessi ákvörðun sé faglega nógu vel rökstudd og enn síður er það sannfærandi ef í ljós kemur að viðamikil könnun eða samanburðarrannsókn á árangrinum af mismunandi meðferðum er að fara af stað, þá er tímasetning þessarar ákvörðunar enn fráleitari.

Það er enginn vafi á því að meðferðarúrræðin innan lands hafa batnað og Bláa lónið er þar auðvitað efst á blaði. Við fögnum því að sjálfsögðu. Þetta snýst ekki um það að menn vilji ekki leysa vanda þessa fólks innan lands eins og kostur er, en það er aldeilis ósýnt og sannað að þar með sé allt í einu hægt að hætta með öllu að senda fólk til meðferðar á þessa stofnun erlendis. Það gæti komið út úr könnun á málinu að nú væri unnt að leysa fleiri tilvik og hjálpa fólki í ríkari mæli en áður var innan lands og kannski kæmust menn þá af með talsvert færri ferðir. En það væri þá líka fagleg niðurstaða og mat í ljósi slíkrar vinnu en ekki bara þumalputtaákvörðun af þessu tagi sem mér finnst alls ekki nógu trúverðug eða traustlega ákvörðuð.

Ég vek líka athygli á því að eins og lagagreinin er þá gerist þetta ekki nema á grundvelli mats sérfræðinga um þörf fyrir slíka meðferð. Það fær enginn neitt nema sérfræðingur sé búinn að meta það að þetta sé það úrræði sem helst geti orðið honum að liði þannig að það er ekki eins og þetta sé eitthvað sem menn geta bara fengið út í bláinn, það er ekki svo.

Að lokum, herra forseti, hvet ég hæstv. ráðherra til að fara þess formlega á leit við tryggingaráð að það endurmeti afstöðu sína til þessa máls, ekki kannski með það í huga endilega að horfið verði að óbreyttu fyrirkomulagi eins og það var á fyrri tíð, heldur verði farið faglega ofan í saumana á þessu máli og tekin efnislega rökstudd og vel ígrunduð ákvörðun en þetta ekki gert með þessum hætti. Hæstv. ráðherra yrði maður að meiri ef hann beitti sér fyrir því að þannig væri unnið í málinu.