Niðurskurður á fé til heilsugæslu og forvarnastarfs

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:53:58 (4875)

1996-04-17 13:53:58# 120. lþ. 120.3 fundur 383. mál: #A niðurskurður á fé til heilsugæslu og forvarnastarfs# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í íslenskri heilbrigðisáætlun frá 1991 er megináhersla lögð á heilsuvernd og forvarnir. Um þær áherslur hefur heldur ekki verið ágreiningur fyrr en kemur að fjárlagagerð. Forvarnir eru langtímasparnaður en okkar fjárlagagerð hefur því miður byggst meira á reddingum og skyndilausnum en áætlunum um skynsamlega röðun verkefna eða forgangsröðun. En þrátt fyrir að við séum orðin alvön slíkum vinnubrögðum, þá hrökkvum við illa við þegar okkur er gert það ljóst að nú sé svo komið í niðurskurði til heilsuverndar að heilsugæslustöðvar þurfi að leggja af tiltekna forvarnaþætti. Það gerðist þegar það varð ljóst að heilsugæslustöðin á Akureyri treysti sér ekki til að halda áfram samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands um krabbameinsleit. Þátttaka heilsugæslustöðvarinnar upp á rúma milljón er stöðinni óviðráðanleg miðað við að reynt sé að halda uppi sem næst eðlilegri þjónustu á öðrum sviðum. Þetta gerist þrátt fyrir það að talið sé sannað að leit að leghálskrabbameini sé arðbær heilsuvernd og forvarnastarf. Laun í heilsugæslunni hafa verið skorin flatt niður undanfarin ár og nú kom auk 2% hagræðingarkröfu 10% niðurskurður á almennt framlag til þessarar stöðvar. Þannig er það víðar að flatur niðurskurður með kröfu um að stjórnendur stöðvanna hagræði hefur verið í gangi og þvert á fyrirætlan stjórnvalda hefur fé til heilsugæslu dregist saman hlutfallslega undanfarin ár á kostnað spítala- og sérfræðiþjónustu.

Einn góðan veðurdag kemur að því að ekki verður lengra gengið í hagræðingunni og eina leiðin er að skera af tiltekna þjónustu. Sú tiltekna þjónusta gæti allt eins orðið heilsugæsla í skólum sem eins og annað hefur verið dregin saman. Forstöðumenn stöðvanna hljóta að vega það og meta hvað er sársaukaminnst. Í tilfelli heilsugæslunnar á Akureyri hefur valið að þessu sinni e.t.v. mótast af því að fagleg ábyrgð á krabbameinsskoðuninni er hjá Krabbameinsfélaginu, heilsugæslustöðin fær engu ráðið um fyrirkomulagið og svigrúm til hagræðingar á því sviði er því takmarkað.

Kannanir erlendis leiða það í ljós að öflug heilsuvernd getur lækkað kostnað við ýmsa aðra þætti heilbrigðiskerfisins. Með það í huga ásamt því að forvarnir og heilsuvernd eru á pappírnum a.m.k. megináhersla í okkar kerfi, þá leyfi ég mér að spyrja hæstv. heilbrrh. hver áform séu varðandi þá stöðu sem upp er komin þegar heilsugæslustöðvar geta ekki lengur hagrætt eða skorið niður almennan rekstur, þar með taldar forvarnir, til að mæta niðurskurði ríkisins og neyðast til að leggja alveg niður suma þætti forvarnastarfs, samanber fréttir frá Akureyri þar sem verið er að leggja niður reglubundna krabbameinsleit.

Eins og ljóst má vera er ég ekki aðeins að leita eftir áformum ráðherra varðandi krabbameinsleitina á Akureyri þó að svör við því séu að sjálfsögðu kærkomin heldur ekki síður að leita almennt eftir viðbrögðum gagnvart því þegar niðurskurður bitnar svo beint á því sem ekki er ágreiningur um, þ.e. heilsuvernd og forvörnum.