Niðurskurður á fé til heilsugæslu og forvarnastarfs

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 13:57:32 (4876)

1996-04-17 13:57:32# 120. lþ. 120.3 fundur 383. mál: #A niðurskurður á fé til heilsugæslu og forvarnastarfs# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[13:57]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Svar við fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur er eftirfarandi: Ekki er rétt að svo langt hafi verið gengið í niðurskurði ríkisins á rekstrarfé til heilsugæslustöðvarinnar að heilsugæslustöðvar hafi þurft að leggja af ákveðna þætti í starfseminni. Fréttir um að heilsugæslustöðin á Akureyri hyggist hæta krabbameinsleit á stöðinni er einangrað tilvik. Rekstrarframlög á íbúa til heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri er hærra en á sambærilegum heilsugæslustöðvum sem einnig sinna krabbameinsleit og má þar nefna Suðurnes.

Í sambandi við fréttir frá Akureyri þar sem fram kemur að verið sé að leggja niður krabbameinsleit þar, þá get ég upplýst að svo er ekki. Krabbameinsleit verður ekki lögð niður á Akureyri þar sem í gildi er verksamningur milli Krabbameinsfélags Íslands og heilbrrn. sem gerir ráð fyrir að Krabbameinsfélagið sjái um krabbameinsleit um land allt og eru nánari ákvæði um framkvæmd leitarinnar í samningnum. Til þessa verkefnis er veitt 104 millj. kr. á fjárlögum þessa árs. Leitarstarfið fer fram í samvinnu við heilsugæsluna á hverjum stað að höfðu samráði við héraðslækna. Heislugæslan hefur lagt til afnot af húsnæði og þjónustu hjúkrunarfræðinga meðan á leit stendur.

Heilsugæslan á Akureyri hefur nú tilkynnt að hún ætli að hætta þessari samvinnu vegna fjárskorts. Þetta gerir stöðin án samráðs við ráðuneytið og ráðuneytið hefur nú þegar tekið þetta upp við forsvarsmenn heilsugæslustöðvarinnar. Ráðuneytið telur að hugsanlega þurfi að endurskoða fyrirkomulag leitarinnar og hefur nú þegar óskað eftir og fengið tillögur þar að lútandi frá Krabbameinsfélaginu. Starfsmenn ráðuneytisins hafa einnig haldið fundi með fulltrúum heilsugæslustöðvarinnar, héraðslækni og fulltrúa Krabbameinsfélagsins, þar sem farið var yfir hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi, en ljóst er að krabbameinsleit á Akureyri verður að sjálfsögðu ekki hætt eins og ég kom inn á áðan, en hugsanlega verður fyrirkomulaginu breytt.