Þróunarverkefni í heilsugæsluforvörnum

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:09:15 (4880)

1996-04-17 14:09:15# 120. lþ. 120.4 fundur 384. mál: #A þróunarverkefni í heilsugæsluforvörnum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:09]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Fyrirspurnin var reyndar af hverju hefði verið ákveðið við fjárlagagerðina 1996 að hætta þessum stuðningi. Við því komu ekki svör önnur en þau að það hefði verið í valdi nefndarinnar. Mér er ekki alveg ljóst hvert ég hefði þá átt að beina fyrirspurninni, en gerði það til hæstv. ráðherra þar sem ég taldi að heilbrrn. og ráðherrann hefðu eitthvað um það að segja hvernig þær fjárveitingar skiptast sem hv. nefnd ákvarðar í hvern málaflokk. Í máli ráðherrans kom fram að ráðuneytið sjálft hafi í gegnum tíðina pírt í verkefnið örlitlum fjármunum og ber að þakka það. Mér sýnist hins vegar að hér sé í rauninni á ferðinni það sem við höfum stundum viljað kalla handahófskenndar fjárveitingar. Eins og kom í máli hæstv. ráðherra er hún full velvilja gagnvart verkefninu, en eigi að síður gerist það með einhverjum slysalegum hætti að stuðningur er skorinn af.

Ég óttast, herra forseti, að þetta eigi kannski við um fleira í okkar heilbrigðisþjónustu að menn sjáist ekki alltaf fyrir þegar þeir eru að redda með skyndilausnum við gerð fjárlaga en ég vænti að sú fjárveiting sem ráðuneytið hefur nú komið með til verkefnisins verði til þess að menn geti horft fram til loka þess og geti þá kynnt niðurstöður á næsta ári eins og fyrirhugað var þannig að aðrar heilsugæslustöðvar geti nýtt sér þær niðurstöður.