Neyðarhjálp vegna fátæktar

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 14:34:47 (4889)

1996-04-17 14:34:47# 120. lþ. 120.7 fundur 370. mál: #A neyðarhjálp vegna fátæktar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[14:34]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég byggi fyrirspurn mína að hluta til á upplýsingum félagsmálafulltrúa ýmissa sveitarfélaga og einnig á viðtalsþætti í Ríkisútvarpinu á Rás 2 þann 27. des. sl. Þar kom fram í fréttaviðtali Þorvaldar Friðrikssonar við Sigrúnu Halldórsdóttur að matargjafir ýmissa líknarstofnana til Íslendinga skiptu þúsundum.

Ég hef haldið því fram að fátækt sé að hreiðra um sig hér á landi sem lýsir sér í því að hjálparstofnanir hafi í vaxandi mæli orðið að beina starfi sínu að því að veita Íslendingum neyðaraðstoð og félagsleg aðstoð sveitarfélaga til einstaklinga sé sífellt vaxandi. Ástæður fátæktar tel ég vera lág laun, atvinnuleysi og samdrátt yfirvinnu, svo að nokkuð sé nefnt. Ástæða sem einnig er skylt að nefna er auðvelt aðgengi að lánsfé í fjölmörgum myndum og einnig að ef lánastofnanir hafa fengið trausta ábyrgðarmenn virðist sem þær hafi látið sér það duga án þess að kanna möguleika lántakanda til að standa við endurgreiðslu umrædds láns. Þetta ásamt siðferðisskorti virðist vera orsök þess að fátækt er í einhverjum mæli á Íslandi. Ef rétt er þá er það þjóðarskömm.

Ég spyr hæstv. félmrh. eftirfarandi spurninga og svar hans mun væntanlega gefa til kynna hvort mín fátæktarumræða sé skrum eða staðreynd. Spurningar mínar eru eftirfarandi:

1. Hversu margir Íslendingar fengu neyðarhjálp vegna fátæktar árin 1994 og 1995?

2. Í hvaða formi var sú aðstoð og hverjir veittu hana?